Leigja Perluna fyrir 80 milljónir á ári

Grunnsýning Náttúruminjasafns Íslands verður opnuð í Perlunni haustið 2014. Veglega grunnsýningu um náttúru Íslands hefur vantað tilfinnanlega og nú er stigið fyrsta skrefið til að bæta úr því, segir í tilkynningu frá menntamálaráðuneytinu.

 Sýningunni er ætlað að auka vitund landsmanna um náttúru Íslands, vera mikilvæg fyrir náttúrufræðikennslu á öllum skólastigum og veita aðgang að því mikla fræðsluefni sem er í öðrum vísindastofnunum, náttúruminjasöfnum, náttúrustofum og þjóðgörðum landsins. Náttúrusýningar eru mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn og eru víðast hvar meðal fjölsóttustu ferðamannastaða. Sýningin mun því styrkja upplifun ferðamanna af íslenskri náttúru. Perlan er spennandi kostur fyrir slíka sýningu enda ein mest áberandi bygging í borgarlandslaginu með útsýni til allra átta.

Náttúruminjasafn Íslands, sem samkvæmt lögum er höfuðsafn á sviði náttúruvísinda, hefur verið vanbúið í starfsemi sinni allt frá stofnun en nú mun grunnsýningin í Perlunni verða þungamiðjan í starfsemi þess.

Í dag, miðvikudag 13. mars 2013 kl. 15, munu Margrét Hallgrímsdóttir settur safnstjóri Náttúruminjasafns Íslands, Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Katrín Júlíusdóttir fjármála- og efnahagsráðherra annars vegar og Jón Gnarr borgarstjóri og Dagur B. Eggertsson formaður borgarráðs hins vegar, undirrita samning um leigu á aðstöðu í Perlunni undir sýninguna. Leigusamningurinn er til 15 ára og ársleigan 80 milljónir króna.

Í kjölfar undirritunar leigusamningsins verður efnt til samkeppni um hönnun grunnsýningarinnar í húsinu. Framundan er ráðning nýs forstöðumanns við safnið sem mun leiða mótun sýningarinnar og starfsemi safnsins næstu árin. Uppbygging  grunnsýningar Náttúruminjasafns Íslands er liður í fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar. Þar er gert ráð fyrir að varið verði 500 m.kr. til hönnunar og uppsetningar á sýningunni og mótun aðstöðu fyrir Náttúruminjasafns Íslands í Perlunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert