Verður líklega laus gegn tryggingu

Davíð Arnar Bjarnason og Þóra Birgisdóttir sambýliskona hans.
Davíð Arnar Bjarnason og Þóra Birgisdóttir sambýliskona hans. mbl.is

„Samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum fengið frá dómstólnum, þá verður Davíð að öllum líkindum látinn laus gegn tryggingagjaldi. Reynt verður að flýta því að hann komi fyrir dómara eins og hægt verður.“ Þetta segir Dr. Selim Sarıibrahimoğlu, ræðismaður Íslands í Ankara á Tyrklandi, í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is um stöðuna á máli Davíðs Arnar Bjarnasonar, sem nú er í fangelsi í Tyrklandi vegna gruns um smygl á fornmunum.

Engin dagsetning hefur verið gefin út um hvenær Davíð Örn fer fyrir dómara.

„Hann mun fara fyrir þann dómstól í Antalya sem fer með alvarlega glæpi,“ segir Dr. Sarıibrahimoğlu. 

Hann segir að líðan Davíðs sé með ágætum, hann eigi ekki við nein heilsufarsvandamál að stríða, en að hann þoli nokkuð illa þann mat sem hann fær í fangelsinu. „Honum líður vel, en hann vill bara fá að tala við konuna sína og börnin sín. Hann deilir klefa með tveimur Þjóðverjum og þeir hafa aðstoðað hann á ýmsan hátt, meðal annars með því að láta hann fá fatnað.“

Í svari Sarıibrahimoğlu segir að hann hafi sent aðstoðarmann sinn í fangelsið til að ræða við fangelsisstjórann um aðstæður Davíðs Arnar. „Hún hefur farið fram á að hann fái að hringja og hefur látið hann fá fé. Embættismenn hafa sagt henni að ef við getum sent skriflega staðfestingu á tengslum Davíðs við þá sem hann vill hafa samband við, þá fái hann að hringja í konu sína og börn.“

Sarıibrahimoğlu segir að hann muni láta Davíð fá meira fé, en reglur fangelsisins kveði á um að fangar megi einungis fá tiltekna fjárupphæð.

Þá má geta þess að þau Stefán Hrafn Ólafsson og Ósk Ágústsdóttir hafa stofnað styrktarreikning til handa Davíð Erni og unnustu hans. Þau benda áhugasömum á reikningsnúmerið 0322-13-129886 og kennitalan 101281-3969.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert