Mun reyna að ná fundi Davíðs Arnar á morgun

Davíð Arnar Bjarnason og Þóra Birgisdóttir.
Davíð Arnar Bjarnason og Þóra Birgisdóttir.

Fulltrúi íslenska utanríkisráðuneytisins heldur af stað til Antalya í Tyrklandi í dag til að freista þess að ná tali af Davíð Erni Bjarnasyni, sem er þar í fangelsi vegna gruns um fornminjasmygl. 

Þóra Birgisdóttir, sambýliskona Davíðs Arnar, bindur miklar vonir við að sendimanninum takist að ná tali af Davíð, en hann hefur meðferðis bréf og myndir frá henni og börnum þeirra.

„Mér skilst að hann ætli að reyna að hitta hann á morgun, fimmtudag,“ segir Þóra. „Hann ætlaði að reyna sitt besta, en sagðist engu lofa. En ég heyri líklega ekki í honum fyrr en á föstudaginn.“

Hún segir að aðstoðarmaður Dr. Selim Sarıibrahimoğlu, ræðismanns Íslands í Ankara á Tyrklandi, hafi haft samband við sig í gær og skýrt frá gangi mála. „Hún sagði að líklega kæmi Davíð fyrir dómara eftir 2-3 vikur.“

Dagsetning um fyrirtöku máls Davíðs hefur ekki verið gefin út, en samkvæmt ræðismanni Íslands í Ankara í Tyrklandi, Dr. Selim Sarıibrahimoğlu, verður reynt að fá því flýtt eins og hægt er. Sarıibrahimoğlu segir að samkvæmt þeim upplýsingum, sem hann hafi fengið frá dómstólum, verði Davíð að öllum líkindum látinn laus gegn greiðslu tryggingar.

Þau Stefán Hrafn Ólafsson og Ósk Ágústsdóttir hafa stofnað styrktarreikning til handa Davíð Erni og unnustu hans. Þau benda áhugasömum á reikningsnúmerið 0322-13-129886 og kennitalan 101281-3969.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert