Spyrja um mengunarhættu Mývatns

Frá Mývatni.
Frá Mývatni. mbl.is/Brynjar Gauti

Landvernd sendi í dag umhverfis- og auðlindaráðherra bréf þar sem spurst var fyrir um svör íslenskra stjórnvalda við fyrirspurn skrifstofu Ramsarsamningsins um mögulega mengunarhættu sem lífríki Mývatns og Laxár gæti stafað af fyrirhugaðri Bjarnarflagsvirkjun.

Fyrirspurn skrifstofunnar byggðist á erindi sem Landvernd og Fuglavernd sendu Ramsarskrifstofunni í september sl. Ramsarsamningurinn er alþjóðlegur samningur um vernd mikilvægra votlendis- og fuglasvæða, og Mývatns- og Laxársvæðið eru eitt þriggja sk. ramsarsvæða á Íslandi. Bréf Landverndar til ráðherra má nálgast í viðhengi, auk þeirra gagna sem Landvernd og Fuglavernd sendu Ramsarskrifstofunni í september sl.

Hér að neðan eru þær meginspurningar sem skrifstofa Ramsarsamningsins sendi íslenskum stjórnvöldum (Umhverfisstofnun), en þær byggðust á bréfi Landverndar og Fuglaverndar til Ramsarskrifstofunnar:

Íslensk stjórnvöld:

a)      kanni vandlega og tilkynni Ramsarskrifstofunni hvers konar hættur sem steðji að vistkerfi Mývatns og Laxár frá hinni fyrirhuguðu jarðhitavirkjun Landsvirkjunar í Bjarnarflagi,

b)      hugleiði að tilnefna Mývatns-Laxár-svæðið á Montreux Record-samninginn sem er nokkurs konar válisti Ramsarsvæða sem sérstök hætta steðjar að og skrifstofan fylgist sérstaklega með,

c)       tryggi að viðunandi eftirlit og vöktun muni eiga sér stað af hendi framkvæmdaaðila í nánu samstarfi við viðeigandi eftirlitsaðila hins opinbera og rannsóknastöðina við Mývatn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert