Magnús Orri Schram alþingismaður segir að breytingartillaga Margrétar Tryggvadóttur við málamiðlunartillögu um afgreiðslu stjórnarskrármálsins setji málið í uppnám og hjálpi á engan hátt framgangi málsins.
Frumvarp að nýrri stjórnarskrá liggur fyrir þinginu og er búið að fara í gegnum tvær umræður. Sjálfstæðismenn og framsóknarmenn hafa gagnrýnt frumvarpið og telja útilokað að klára að afgreiða það á þessu þingi.
Formenn þriggja stjórnmálaflokka, Árni Páll Árnason, Katrín Jakobsdóttir og Guðmundur Steingrímsson, hafa lagt fram frumvarp um hvernig má breyta stjórnarskránni, en þeir hugsa tillöguna sem málamiðlun til að gefa næsta þingi færi á að halda áfram vinnu við breytingar á stjórnarskránni.
Þingmenn Hreyfingarinnar hafa lagt mikla áherslu á að stjórnarskrármálið verði afgreitt á þessu þingi og í dag lagði Margrét Tryggvadóttir fram breytingartillögu við frumvarp formannanna, en tillagan felur í sér að greidd verði atkvæði um fyrirliggjandi tillögur um breytingar á stjórnarskránni.
Þessi breytingartillaga þýðir að ekki verður hægt að afgreiða tillögu formannanna þriggja nema þingmenn greiði fyrst atkvæði um stjórnarskrármálið sjálft.
Margrét sagði við mbl.is að vissulega væri sérstakt að ætla sér að afgreiða breytingar á stjórnarskrá Íslands sem breytingartillögu við lagafrumvarp, enda þætti henni eðlilegast að haldið yrði áfram með stjórnarskrármálið og þriðja umræða um málið yrði kláruð.
„Það er skylda alþingismanna að taka afstöðu til málsins. Það er ekki hægt að vísa öllu til næsta þings. Það voru margir búnir að gefa kosningaloforð um að klára þetta mál og við það á að standa. Við getum ekki bundið næsta þing að neinu og því er ekki annað að gera en að láta reyna á hvort það er meirihluti fyrir málinu,“ sagði Margrét.
Magnús Orri Schram, talsmaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í málinu, sagði það mjög sérstakt að ætla sér að afgreiða stjórnarskrá landsins sem breytingartillögu við frumvarp. „Mér finnst að þessu grunnplaggi íslenskrar löggjafar sé ekki mikil virðing sýnd með slíkri afgreiðslu.“
Magnús Orri sagði að sáttatillaga formannanna væri í anda nýrra vinnubragða í stjórnmálum og hún væri hugsuð til að reyna að tryggja málinu framgang á næsta kjörtímabili þannig að áfram verði hægt að vinna málinu framgang. „Hætt er við því að þessi tillaga leiði til þess að málið verði tekið í gíslingu á þinginu og drukkni í málþófi. Mér finnst ekki góður bragur á því. Ég er því ekki sérstaklega hrifinn af þessari breytingartillögu. Hún hjálpar málinu ekki.“
Magnús Orri sagði að reynt væri að ná samkomulagi um framgang stjórnarskrármálsins á þessu þingi og því næsta. Það sjónarmið hefði komið fram að málið þyrfti lengri tíma og reynt hefði verið að koma á móts við það sjónarmið. „Þessi tillaga setur málið í uppnám,“ segir Magnús Orri.