Hermenn með Arctic Trucks á suðurpólinn

„Við höfum verið með þeim á Langjökli síðan 27. febrúar og komum niður í gær,“ segir Gísli Jónsson, þróunarstjóri hjá Arctic Trucks en undanfarinn hálfan mánuð hafa 18 hermenn frá Ástralíu, Bandaríkjunum, Bretlandi og Kanada verið í þjálfun á Langjökli.

Hermennirnir, sem eru hér á vegum góðgerðarsamtakanna Walking With The Wounded, eiga það sameiginlegt að hafa særst alvarlega í bardaga. Markmiðið með þjálfuninni er að velja sex einstaklinga til að ganga á Suðurpólinn í lok nóvember. Bretarnir Ed Parker og Simon Daglish stofnuðu góðgerðarsamtökin árið 2009.

„Við Simon vorum saman í hernum á sínum tíma. Þegar frændi minn særðist alvarlega í átökum í Afganistan rann upp fyrir mér ljós og ég ákvað að stofna þessi samtök,“ segir Parker.

„Hlutverk samtakanna er að fjármagna menntun og þjálfun særðra hermanna til að hjálpa þeim að finna sér nýja braut utan hersins. Til að vekja athygli á samtökunum leggjum við í jaðarferðir eins og gönguna á Suðurpólinn, en allir sem taka þátt í þeim leiðangri hafa særst illa í bardaga. Við gerum þetta líka til að sýna almenningi og öðrum í sömu stöðu fram á að allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi,“ segir Parker.

Harry Bretaprins er velgjörðarmaður Suðurpólsleiðangursins. Hann ætlaði að fylgja Ed og félögum á  Norðurpólinn 2011. Prinsinn fylgdi þeim leiðangri hluta leiðarinnar, en þurfti frá að hverfa til að mæta í brúðkaup bróður síns að sögn Ed Parker, sem fer fyrir Suðurpólsleiðangrinum.

Arctic Trucks í stóru aukahlutverki

Arctic Trucks hafa aðstoðað hermennina á Langjökli og munu menn frá fyrirtækinu fylgja þeim á Suðurpólnum á sérhönnuðum bílum að sögn Gísla.

„Uppsetningin hjá okkur á jöklinum er svipuð því sem hún verður þegar við förum á Suðurpólinn. Við fylgjum þeim ekki allan daginn heldur erum við alltaf í kallfæri, þannig að ef eitthvað kemur upp á getum við komið og aðstoðað. Að öðru leyti fara þau þetta á „eigin fótum“, segir Gísli og hlær, en margir í hópnum eru með gervifætur eftir að hafa misst sína eigin fætur í bardaga. Hermennirnir gera sjálfir stólpagrín að eigin meiðslum.

„Við verðum alltaf reiðubúin með lækni og matarbirgðir og svoleiðis. Annars reynum við að hafa sem minnst afskipti af þeim. Með okkur í för verða líka ljósmyndarar og hópur frá BBC. Svartíminn hjá okkur er tveir tímar, en ef það ætti að fljúga inn liðsauka þá tæki það tvo sólarhringa. Okkar fólk er þaulvant aðstæðum þarna á Suðurpólnum. Ég tók til dæmist þátt í lengsta leiðangri sem farinn hefur verið þarna,“ segir Gísli.

Ferðafrelsið á Íslandi mikilvægt

Gísli sagði að Arctic Trucks væri búið að skapa sér og Íslandi nafn í þessum geira. „Ef fólk ætlar að gera eitthvað þessu líkt, þá eru það „klikkuðu jeppamennirnir á Íslandi“ sem það hringir fyrst í og sennilega þeir síðustu, því það geta engin önnur fyrirtæki í heiminum gert þetta. Það er mjög gaman að hafa náð þeim stalli. Þegar þáttastjórnendur Top Gear fóru á Norðurpólinn, þá fóru þeir á bílum frá okkur með okkar fólki. Ég fór því miður ekki með, en ég smíðaði bílinn,“ segir Gísli.

„Staða Íslands er einstök hvað þetta varðar. Hérna er hægt að keyra upp á jökul á tveimur klukkutímum frá Reykjavík. Aðstæður þar eru alveg eins og á pólunum tveimur, þannig að það liggur beinast við að koma hingað. Það má kannski nefna í því samhengi að það er mjög mikilvægt að varðveita það aðgengi sem við höfum að náttúru landsins. Við erum í stanslausri landkynningu. Aðal leiðsögumaður hermannanna er Norðmaður, en hann vill ekki sjá að þjálfa þá annarsstaðar en á Íslandi. Þetta byggir á þessu frelsi sem við höfum til að keyra að jöklunum og upp á jöklana. Það er svo sterk hreyfing í gangi sem vill loka öllu af og banna alla umferð um náttúruna en fólk áttar sig ekki á verðmætunum sem eru fólgin í þessu frelsi,“ segir Gísli.

Frétt mbl.is: Særðir hermenn í þjálfun á Íslandi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert