Ostastráknum Gotta var stolið af rennibraut í Sundhöll Selfoss síðastliðið mánudagskvöld. Um er að ræða um 90 sm háa styttu af Gotta, sem margir þekkja úr ostaauglýsingum og er hans sárt saknað bæði af starfsfólki og gestum sem gjarnan vilja endurheimta hann.
Gotti var numinn á brott síðastliðið mánudagskvöld, en samkvæmt upptökum úr öryggismyndavélum sundlaugarinnar voru þar á ferð fjórir menn. Nokkuð þurfti að hafa fyrir verkinu, því Gotti var kyrfilega festur við rennibrautina, boltaður niður og festur með járnstöng. Hann hefur áður verið tekinn ófrjálsri hendi og þá fannst hann á Sýslumannstúninu á Selfossi.
Garðálfur nokkur var skilinn eftir sem staðgengill, hann er nú í afgreiðslu Sundhallarinnar og bíður þess að sín sé vitjað.
Þeir sem geta gefið upplýsingar um ferðir Gotta eru beðnir um að hafa samband við starfsfólk Sundhallar Selfoss í síma 480-1960 eða lögregluna á Selfossi í síma 480-1010.