Bragi endurkjörinn skátahöfðingi

Bragi Björnsson skátahöfðingi og Nigel Hailey alþjóðafulltrúi breskra skáta á …
Bragi Björnsson skátahöfðingi og Nigel Hailey alþjóðafulltrúi breskra skáta á Skátaþingi.

Bragi Björnsson, héraðsdómslögmaður, var endurkjörinn skátahöfðingi á Skátaþingi sem lauk í Hafnarfirði í dag.

Aðrir nýir í stjórn Bandalags íslenskra skáta eru Fríður Finna Sigurðardóttir, læknir, sem  kjörin var aðstoðarskátahöfðingi; Kristinn Ólafsson, framkvæmdastjóri, nýr gjaldkeri hreyfingarinnar og Unnur Flygenring, rekstarfræðingur, sem kjörin var formaður dagskrárráðs með sæti í stjórn. Á þinginu var einnig kosið í helstu ráð og nefndir íslenskra skáta auk þess sem skátaþing samþykkti nýjar siða- og samskiptareglur, endurskoðun laga félagsins, stofnun ungmennaráðs og fleira.

Auk þess að sinna hefðbundnum aðalfundarstörfum ræddu þingfulltrúar um helstu verkefni skátahreyfingarinnar á næstu árum, grunngildi starfsins og þann auð sem býr í íslenskum skátum, skátaforingjum og öðrum sem að starfinu koma.

Nigel Hailey, alþjóðafulltrúi bresku skátahreyfingarinnar, sótti Ísland heim til að taka þátt í dagskrá og störfum Skátaþings. Auk þess að halda opinn umræðufund í tengslum við þingið ávarpaði Nigel þingheim. Þar fór hann meðal annars yfir þá vinnu sem breska skátabandalagið hefur unnið á undanförnum árum, einkum á sviði dagskrárendurnýjunar og ímyndarmála. Undir stjórn skátahöfðingja Breta Bear Grylls, sem líklega er betur þekktur sem ævintýra- og sjónvarpsmaður, hefur tekist að snúa fækkun skáta þar ytra til nokkurra ára yfir í markverða fjölgun og bætta ímynd. Hailey kynnti þá hugmyndafræði sem breskir skátar hafa starfað eftir á þessu sviði og hvernig sú vinna getur nýst öðrum skátabandalögum til góða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert