Buxur og blómakjólar í Femínistafélagi MR

Alexandra Ýr van Erven, Nanna Hermannsdóttir og Guðbjörg Ríkey Thoroddsen …
Alexandra Ýr van Erven, Nanna Hermannsdóttir og Guðbjörg Ríkey Thoroddsen Hauksdóttir. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Framhaldsskólanemar rötuðu ítrekað í fréttir á síðasta ári fyrir uppákomur sem mörgum þótti bera keim af kvenfyrirlitningu og vera til marks um bakslag í jafnréttisbaráttunni. Ekki er þó ástæða til algjörrar örvæntingar um vora unglingafjöld. Jafnréttisumræðan hefur sennilega sjaldan verið jafnlifandi og lifandi dæmi um það er í MR, þar sem nýstofnað Femínistafélag hefur slegið í gegn bæði meðal stelpna og stráka.

„Ég vissi að það væru femínistar í skólanum og að það væri grundvöllur fyrir þessari umræðu, en ekki að það myndi vera svona rosalegur áhugi,“ segir Guðbjörg Ríkey Thoroddsen Hauksdóttir, nemandi í 6. bekk Menntaskólans í Reykjavík sem stofnaði Femínistafélag MR í janúar.

Viðbrögðin fóru fram úr hennar björtustu vonum, því meðlimir eru nú þegar orðnir 178 talsins. Félagið á sér lokaða Facebook-síðu þar sem mikið líf er í tuskunum en auk þess hafa þegar verið haldnir þrír málfundir síðan í janúar og fleiri eru á dagskránni.

Strákastelpur og stelpustrákar

Þegar blaðamann mbl.is bar að garði í MR á fimmtudag stóð einmitt málfundur félagsins yfir, sá fyrsti þar sem fenginn var utanaðkomandi gestur til að taka þátt í umræðum. Þar var á ferðinni Hildur Lilliendahl, einn mest áberandi femínisti landsins um þessar mundir.

Um 50 MR-ingar sátu fundinn sem teygðist langt yfir ætlaðan fundartíma og greinilegt að jafnréttismálin brenna á krökkunum sem ræddu kjaradeilur kvennastétta, forræðismál, stefnumótamenningu og allt þar á milli.

Hvers vegna þykir almennt töff að vera strákastelpa, en neikvætt að vera stelpustrákur? Af hverju er sjálfgefið að móðirin fái forræði við skilnað ef barninu finnst faðirinn betra foreldri? Er karlahatur til rétt eins og kvenhatur? Yrði tekið mark á konu í stjórnunarstöðu ef hún leyfði sér að vera kvenleg og mæta í blómakjól í vinnuna? Eða verða konur að gera sig karlalegar til að vera teknar alvarlega? Er réttlætanlegt að láta strákinn borga allt á stefnumóti eða eiga stelpur ekki að fagna því að vera fjárhagslega sjálfstæðar? Þetta var meðal spurninganna sem velt var upp á fundinum og sýndist hverjum sitt.

Ekki markmiðið að allir séu sammála

Ásamt stofnandanum Guðbjörgu sjá þær Nanna Hermannsdóttir og Alexandra Ýr van Erven um skipulagningu félagsstarfsins, en þar er þó engin eiginleg stjórn heldur koma allir saman að því að móta Femínistafélagið og viðfangsefni þess. Aðspurðar segja þær Femínistafélagið ekki hafa neina yfirlýsta stefnu sem allir þurfi að vera sammála. 

„Femínistar deila alveg sín á milli og það eru ekki allir sammála, en það sem skiptir máli er að umræðan sé til staðar. Markmiðið er bara að skapa grundvöll innan skólans fyrir feminíska umræðu og vonandi opna augu einhverra, en ekki vera með einhverja predikun,“ segir Guðbjörg.

Um það var einmitt rætt á áðurnefndum málfundi, að sá misskilningur væri algengur að allir femínistar séu eins, með samhljóða skoðanir og starfi eftir einhverri samræmdri stefnu. Starf Femínistafélags MR gengur hins vegar fyrst og fremst út á rökræður og eðli málsins samkvæmt því ekki allir sammála. Eitt af því sem afar skiptar skoðanir eru t.d. um innan skólans er staða kynjanna í Gettu betur, sem er mikið strákavígi í MR. Málfundur var haldinn í skólanum um kynjakvóta í Gettu betur um daginn, en engin niðurstaða náðist.

Höfðu meiri skoðanir á málunum en þær grunaði

Stelpurnar segja umræðuna þó sem betur fer ekki verða eins hatramma og orðljóta og oft sést á netmiðlum þegar femínisma ber á góma. „Mér finnst einmitt svo gaman hvað blærinn yfir félaginu er jákvæður,“ segir Alexandra. Enginn fái á sig skítkast fyrir að gangast við því að vera femínisti. 

„Þetta er líka svo mikið í umræðunni og svo margir taka þátt og þá getur fólk varla verið hrætt við það að kalla sig femínista. Það er oft sem ég kem hérna niður [í nemendakjallarann] og þá er fólk að tala um jafnréttismál,“ segir Nanna.

Sjálfar stukku þær tvær ekki strax um borð þegar Femínistafélagið var stofnað, en þegar í ljós kom hve lífleg umræðan varð voru þær fljótar að taka við sér.

„Ég veit ekki hvort ég hafi smitast eða hvað, en ég sá það á umræðum hjá krökkunum sem eru virkir femínistar að mig langaði líka að taka þátt og gefa af mér,“ segir Alexandra Ýr.

Nanna segir að hún hafi varla lagt í það fyrst að hella sér út í umræðuna. „Svo einn daginn þegar ég var veik heima byrjaði ég að lesa og þá fann ég að ég varð að vera með, því ég hafði svo miklar skoðanir á þessu sem ég vissi varla af áður,“ segir Nanna. 

Vigdís Finnbogadóttir mætti í buxum

Í aldalangri sögu Menntaskólans í Reykjavík eru mörg félög sem orðið hafa rótgróin og ríkar hefðir hafa skapast um. Ekkert jafnréttisfélag er þar á meðal og Femínistafélagið nýstofnaða virðist því hafa fyllt upp í ákveðið tómarúm, ef marka má góðar viðtökur.

Þess eru þó eldri dæmi að í skólanum hafi félög sprottið upp úr kvenréttindabaráttu nemenda, þótt þau hafi ekki lifað. Eitt það fyrsta var sennilega Málfundafélag menntaskólastúlkna sem stofnað var á námsárum Vigdísar Finnbogadóttur á 5. áratugnum, enda bauð hefðin ekki að konur tæku til máls á menntaskólafundum á þeim tíma.

Stelpurnar í Femínistafélaginu eru þess meðvitaðar að margt hefur breyst fyrir tilstilli þeirra kvenna sem á undan þeim fóru. Þær segja blaðamanni frá því að Vigdís Finnbogadóttir hafi komið í heimsókn í skólann fyrir stuttu og þá m.a. sagt frá því að í hennar námstíð var til þess ætlað að skólastúlkur gengju í pilsum, sama hvernig viðraði. Gegn þessu gerðu Vigdís og skólasystur hennar uppreisn og tóku sig saman um að mæta í skólann í buxum.

„Þetta sýnir að við höfum komist eitthvað áfram,“ segir Nanna.

Strákarnir vilja líka vera með

Sú spurning vaknar óhjákvæmilega hvort Femínistafélagið í MR sé eintómt kvennafélag eða hvort strákarnir taki líka þátt, og svarið er já, það gera þeir. „Ég var með vasareikninn á lofti um daginn og reiknaði þetta. Strákarnir eru eitthvað um 30-40% sem er þó það, en við vildum auðvitað hafa það jafnt,“ segir Guðbjörg.

Nanna bendir á að þegar kosið var í skipulagsnefndina voru fjórir frambjóðendur af öðru ári, og þrír þeirra voru strákar. Það var þó stelpan sem var kosin. Þær fagna því að hópurinn sé fjölbreyttur til að fá fram sem flest sjónarhorn.

„Strákarnir, og þá sérstaklega þeir yngri, hafa tekið mjög virkan þátt í umræðum og komið með alls konar punkta sem maður hafði ekki hugsað út í,“ segir Guðbjörg.

Leiðin til jafnréttis að fólk tali saman

Femínistafélag MR hefur enga yfirlýsta stefnu aðra en að skapa umræðu, sem stelpurnar vona að berist sem víðast. Facebook síða félagsins er eingöngu opin fyrir meðlimi í MR, en málfundir félagsins eru öllum opnir og velkomið að sem flestir taki þar þátt í umræðum. Stefnt er að því að fá fleiri fyrirlesara til að koma og flytja erindi um ýmis mál á fundunum.

Aðspurðar segjast stelpurnar þess handvissar að félagið muni lifa áfram eftir þeirra dag í skólanum, enda hafi yngri nemendur tekið mjög vel við sér. Þær vonast líka til þess að sambærileg félög verði stofnuð í öðrum skólum og raunar hefur heyrst ávinningur af því að það standi til víðar.

„Það hafa krakkar úr öðrum skólum verið að spyrja okkur hvort þau megi vera með og mæta á viðburði,“ segir Alexandra. „Okkur langar mikið að þetta dreifist út og svona félög verði stofnuð innan fleiri skóla. Ég held að vitundarvakning sé eina leiðin að jafnrétti, að fólk tali saman um þetta.“

Um 50 manns sátu þriðja málfund Femínistafélags MR þar sem …
Um 50 manns sátu þriðja málfund Femínistafélags MR þar sem farið var um víðan völl í umræðum um jafnréttismál. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
MR er skóli gamalla hefða en þar hefur nýstofnað Femínistafélag …
MR er skóli gamalla hefða en þar hefur nýstofnað Femínistafélag fengið góðan hljómgrunn. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert