Vilja Hofsjökul undir friðland

Hér má sjá núverandi friðlönd sunnan og norðvestan Hofsjökuls og …
Hér má sjá núverandi friðlönd sunnan og norðvestan Hofsjökuls og svo tillögu að stækkun friðlandsins um Þjórsárver. mbl.is/Elín Esther

„Þetta er tillagan eins og hún kemur fram í náttúruverndaráætlun - nema það að við bættum við jöklinum þannig að hún er aðeins stærri en náttúruverndaráætlun,“ segir Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar og formaður samstarfsnefndar um stækkun friðlands í Þjórsárverum.

Hún segir að það hafi í gegnum tíðina verið allskonar hugmyndir og meðal annars um Kerlingafjöll en að það hafi ekki verið inni í núgildandi náttúruverndaráætlun.

Spurð út í friðlandi vestan Hofsjökuls sem nær frá jökli og langleiðina niður í Blöndulón segir hún: „Guðlaugstungur eru friðaðar og halda sér sem sérstakt friðland en tengist algjörlega.“

Níu sveitarfélög koma að málum

Spurð út í ferilinn að baki tillögunni segir hún: „Það var samþykkt í ríkisstjórninni í ágúst 2009. Við byrjuðum þessa vinnu í byrjun árs 2010 og settum á fót samstarfsnefnd með öllum þeim sveitarfélögum sem málið varða en það eru níu sveitarfélög. Við funduðum reglulega en má segja að í lok árs 2010 hafi verið komin grunndrög að þessu. Við vorum að bíða eftir niðurstöðum rammaáætlunar um Norðlingaöldulón vegna þess að upphaflega tillagan sem við erum að vinna með áfram í dag gerði ráð fyrir því að lónið hefði verið innan svæðis. Nefndin var sammála um að bíða niðurstöðu rammaáætlunar sem lá fyrir nú í janúar á þessu ári um það að Norðlingaöldulón fari í verndarflokk. Þá drifum við okkur af stað aftur.“

-Eru einhver landfræðileg rök fyrir þessari legu fyrir utan jökulinn?

„Aðal viðfangsefnið er verndum rústamýravistar og að skapa nægjanlegt rými í kringum hana. Þessi samspil á milli jökuls og svæðisins eru afskaplega merkileg hafandi í huga meðal annars að ef að hitastig heldur áfram að hækka og jöklarnir áfram að hopa - hvað gerist á þessu svæði?“

Hefur ekki áhrif rekstur veitumannvirkja innan svæðis

-Hvaða áhrif hefur þetta á nýtingu úr Þjórsá?

„Það hefur engin áhrif á það. Þarna eru innan núverandi friðlands Kvíslárveitur og það breytist ekki. Það eru mjög skýr ákvæði í friðlýsingarskilmálum í þessum drögum sem við erum að auglýsa núna og óska eftir athugasemdum við að það er heimild að halda við núverandi mannvirkjum og þarna eru stíflustæði sem þarf alltaf að halda við og það verður áfram. Þú ert í raun og veru að gera betri vernd fyrir þessa svokölluðu rústamýravist og líka setja þennan skýrleika. Þú tekur eftir því að við erum með mikið af kortum þar sem við erum að segja hvað eru slóðar, hvað eru svæði með takmarkaða umferð vegna varps heiðargæsa á vorin og hvar má ekki keyra yfir veturna. Við leggjum mikla áherslu á að það liggi fyrir núna strax hvaða reglur verði inni á svæðinu.“

-Það er góð sátt meðal sveitarfélaganna á þessu svæði um útfærsluna?

„Við höfum unnið þetta með fulltrúum þessara sveitarfélaga og allir samþykktu að senda þessa tillögu inn - en það er auðvitað ljóst að menn vilja líka sjá að ákveðið fjármagn fari þarna inn. Það er ekki nóg að friðlýsa - það þarf að sinna svæðinu. Þetta er gert með hefðbundnum hætti. Það eru stofnaðar nefndir og þær hafa samráð við sín sveitarfélög.“

Vildu hafa opið umsagnarferli og fá sem flesta að málinu

Spurð út í næstu skref segir Kristín Linda: „Það er til 3. apríl sem samstarfsnefndin er með þetta í auglýsingu. Þá mun samstarfsnefndin hittast og fara yfir athugasemdir sem fram koma og skila af sér endanlegri tillögu til ráðherra. Hún þarf svo að hljóta samþykki hjá viðkomandi sveitarfélögum. Það er alltaf gert og við höfum skrifað undir yfirlýsingu sveitarfélaganna. Þetta er ferillinn sem við vildum hafa á málinu. Hafa opið umsagnarferli og reyna að fá sem flesta að enda er þetta svæði sem skiptir marga miklu máli.“

Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar.
Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert