Frestur vegna Eirar að renna út

Öryggisíbúðir á vegum Eirar við Fróðengi í Grafarvogi.
Öryggisíbúðir á vegum Eirar við Fróðengi í Grafarvogi. mbl.is/Ómar

Í kvöld rennur út frestur sem íbúar hjúkrunarheimilisins Eirar, sem hafa keypt búseturétt í öryggisíbúðum heimilisins, hafa til að svara tillögu stjórnar hjúkrunarheimilisins skuldavanda þess. Náist ekki samkomulag blasa nauðasamningar við.

Jón Sigurðsson, stjórnarformaður Eirar, og Sigurður Rúnar Sigurjónsson, framkvæmdastjóri heimilisins, sögðu í samtali við mbl.is fyrr í dag að málið væri í vinnslu og að það geti tekið lengri tíma að fá svör frá öllum íbúum. Jón segir að stjórn Eirar muni koma saman til fundar í fyrramálið.

Stefán Árni Auðólfsson, lögmaður íbúa Eirar, tekur í sama streng og segir að engin niðurstaða liggi fyrir á þessari stundu.

„Það er ekkert komið í ljós. Með tilliti til atkvæðahópsins, bæði hvað hann er stór og dreifður, þá reikna ég með að það geti tekið einhverja daga að klára að safna undirskriftum,“ segir Stefán Árni í samtali við mbl.is.

Gefa út skuldabréf til 25 ára

Stjórn Eirar lagði til fyrir þremur vikum, 27. febrúar, að gefið verði út skuldabréf til að standa við skuldbindingar gagnvart þeim sem hafa keypt búseturétt í öryggisíbúðunum. Um er að ræða verðtryggð skuldabréf til 25 ára með 3,5% vöxtum.

Fram hefur komið, að samkvæmt núverandi samningum beri Eir að endurgreiða íbúðarétt með einni greiðslu sex mánuðum eftir að íbúð er skilað. Greiðslur Eirar vegna uppgjörs við íbúðarréttarhafa hafa verið frystar síðan 2012 vegna lausafjárvanda.

Jón sagði í samtali við Morgunblaðið í byrjun þessa mánaðar, að aðalmarkmiðið væri að komast hjá gjaldþrotameðferð og tryggja að fólkið sem hefði sest að í íbúðunum gætu verið þar áfram í fullu öryggi.

Ljóst er að ekki eru allir íbúar sáttir við þá stöðu sem er nú uppi en ekki hefur fengist uppgefið hvort einhverjar séu staðráðnir í því að samþykkja ekki núverandi tillögu. Til að hún teljist samþykkt þarf grænt ljós frá öllum íbúum.

Í dag hafa menn unnið að því að heimsækja öryggisíbúðirnar, sem eru á þremur stöðum í Grafarvogi og í Mosfellsbæ, til að fá endanleg viðbrögð íbúa. Menn munu svo gefa sér tíma til að fara yfir öll gögn og líklegt þykir að endanleg niðurstaða muni liggja fyrir eftir helgi. 

Fáist ekki samþykki þá eru nauðasamningar vænlegasta leiðin

Stefán Árni tekur þó fram, að ef það liggi fyrir í kvöld að einhverjir íbúar ætli sér alls ekki að samþykkja tillöguna þá geti stjórn Eirar tekið ákvörðun strax í fyrramálið um nauðasamninga. Til að ná þeim í gegn þarf samþykki frá um 60% íbúa.

„Ef það næst ekki samþykki fyrir þessari tillögu, sem stjórnin hefur lagt fram, þá verður hún, með tilliti til hagsmuna aðila, að leita væntanlega úrræða samkvæmt gjaldþrotalögum. Þá er vænlegasta leiðin nauðasamningar,“ segir Stefán Árni og bætir við að minnsta áhættan fylgi þeirri leið og að hún myndi tryggja betri endurheimtur heldur en gjaldþrot.

Verði tillagan aftur á móti samþykkt, þá getur stjórn Eirar lokið þeirri vinnu sem þörf að ráðast í svo samkomlag geti gengið eftir til að tryggja rekstur hjúkrunarheimilisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert