Vill afskrifa 90% snjóhengjunnar

Lilja Mósesdóttir, alþingismaður.
Lilja Mósesdóttir, alþingismaður. mbl.is/Ómar Óskarsson

Lágmarks afskrift snjóhengjunnar svokallaðrar er 90% að mati Lilju Mósesdóttur, alþingismanns. Hún segir að það sem eftir standi, um 120 milljarðar króna, verði síðan að binda til margra ára í innlendri fjárfestingu en snjóhengjan samanstendur af aflandskrónum og kröfum erlendra aðila í gömlu bankana og nýja Landsbankann.

Lilja vísar í nýja þjóðhagsspá Seðlabanka Íslands þar sem fram komi „að gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins muni ekki duga til að greiða fyrir innflutning og afborgunarbyrði af erlendum lánum innlendra aðila fram til 2020. M.ö.o. hætta er á greiðsluþroti ef okkur tekst ekki að tryggja verulegt innstreymi gjaldeyris til fjárfestinga, lengja í lánum og semja um lækkun erlendra skulda.“ Hún segir Má Guðmundsson, seðlabankastjóri, þegar hafa gefið í skyn að afskrifa þurfi 75% snjóhengjunnar en ganga þurfi lengra í þeim efnum.

„Endurreisn nýja Landsbankans mun hins vegar torvelda 90% afskrift, þar sem kröfuhafar gamla Landsbankans fengu ríkisábyrgð á að þeir gætu skipt 300 milljarða kröfu sinni í gamla bankann fyrir í erlendan gjaldeyri. M.ö.o. endurreisn Landsbankans þýðir að búið er að senda skattgreiðendum um 180 milljarða reikning sem engin greiðslugeta var fyrir,“ segir Lilja á Facebook-síðu sinni í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert