Fjölbreytt og góð áhrif af sæstreng

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, á ársfundi fyrirtækisins í Hörpu í …
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, á ársfundi fyrirtækisins í Hörpu í dag. mbl.is/Kristinn

Sæstrengur milli Íslands og Bretlands hefði fjölbreytt áhrif á íslenskt atvinnulíf og myndi ekki ógna stöðu starfandi stóriðjufyrirtækja hér á landi. Þetta kom m.a. fram í máli Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, á ársfundi fyrirtækisins í Hörpu í dag.

Sagði hann sæstreng skapa fjölmörg áhugaverð störf, ekki síst fyrir verkfræðinga. Störf myndu skapast við nýbyggingu og endurhönnun orkumannvirkja, viðhald og samrekstur ólíkrar raforkuvinnslu, við rekstur orkuspálíkana og verðmæt þekking myndi skapast.

Hörður sagði Íslendinga búa yfir einstökum möguleikum á að nýta vatnsafl, jarðvarma og vindorku. Með lagningu sæstrengs væri hægt að nýta betur þá orku sem er verið að framleiða, auk þess að fjölga orkukostum eins og frá litlum rennslisvirkjunum, vindmyllum og virkjunum á lághitasvæðum.

Sagði Hörður að ónýtt raforka í núverandi kerfi væri 15-20 milljarða króna virði, miðað við orkuvinnslugetu að jafnaði á ári.

Hægt er að fylgjast með beinni útsendingu frá ársfundinum á vef Landsvirkjunar.

Fyrr í dag fluttu erindi þær Katrín Júlíusdóttir fjármálaráðherra og Bryndís Hlöðversdóttir, stjórnarformaður Landsvirkjunar.




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert