Niðurstaða í byrjun næstu viku

mbl.is/Ómar

Endanleg svör íbúa Eirar, sem hafa keypt búseturétt í öryggisíbúðum heimilisins, við tillögu stjórnar Eirar að skuldavanda þess munu liggja fyrir í byrjun næstu viku. Það hefur tekið lengri tíma að fá svör frá öllum íbúum og standa vonir til að endanleg niðurstaða fáist á mánudag eða þriðjudag.

Jón Sigurðsson, stjórnarformaður Eirar, og Sigurður Rúnar Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Eirar, segja í samtali við mbl.is að enn eigi eftir að fá svör frá öllum íbúum. Frestur til að svara tillögunni rann út á miðnætti en íbúum hefur verið gefið svigrúm til að skila endanlegu svari í byrjun næstu viku.

„Undirtektirnar eru mjög góðar [...] við erum bara ekki búin að ná í alla. Við erum búin að lofa fólki að ræða við það sérstaklega og við erum að reyna að raða því upp. Það klárast ekki fyrr en eftir helgi,“ segir Jón.

Stjórn Eirar lagði til þann 27. febrúar sl. að gefið verði út skuldabréf til að standa við skuldbindingar gagnvart þeim sem hafa keypt búseturétt í öryggisíbúðunum. Um er að ræða verðtryggð skuldabréf til 25 ára með 3,5% vöxtum.

Til að tillagan teljist samþykkt þarf hún grænt ljós frá öllum íbúum.

Fram hefur komið, að samkvæmt núverandi samningum beri Eir að endurgreiða íbúðarétt með einni greiðslu sex mánuðum eftir að íbúð er skilað. Greiðslur Eirar vegna uppgjörs við íbúðarréttarhafa hafa verið frystar síðan 2012 vegna lausafjárvanda.

Tímafrekt að safna saman svörum

Spurður um það svigrúm sem íbúarnir hafa fengið segir Jón: „Við megum náttúrulega ekki halda endalaust áfram því við gáfum fólki ákveðna fresti.“ Hann bætir við að stjórnin verði að beygja sig fyrir því að sumir íbúar hafi óskað eftir viðtölum og sumir hafi verið í sambandi við börn og ættingja vegna málsins. Hluti þeirra sé búsettur eða sé staddur erlendis eða úti á landi. Málið hafi því dregist aðeins.

Jón segir að menn miði við að endanleg svör liggi fyrir annað hvort á mánudag eða þriðjudag.

Náist ekki samkomulag um núverandi tillögu þá blasa nauðasamningar við. Aðspurður segir Jón að það ferli geti tekið um tvo og hálfan til þrjá mánuði, en þá er málið komið í opinbert ferli undir eftirliti umsjónarmanns. „Það á ekki að þurfa að taka lengri tíma, held ég,“ segir Jón.

„Ég veit ekki hvort við þurfum að fara í nauðasamninga núna eða ekki. Ég sé það ekki á þessari stundu,“ tekur hann fram. Aðspurður segir hann að undirbúningur að nauðasamningum megi ekki hefjast á meðan verið sé að leita frjálsra samninga.

Til að samþykkja nauðasamninga þarf samþykki frá 60% af aðilum og fjárhæðum. „En það er ekki komið að því,“ bætir Jón við og ítrekar að nú sé unnið að frjálsum samningum og „maður gerir ekki nema eitt í einu í þessu.“

Stjórn Eirar kom saman á fundi í morgun og þar var m.a. farið yfir ársreikning heimilisins og verkefni starfsmanna, m.a. varðandi söfnun upplýsinga og svara frá íbúum varðandi tillögu stjórnarinnar. Þá var ræddur undirbúningur að aðalfundi Eirar sem mun fara fram 19. apríl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert