Löndin sameinist um þjónustu við olíuleitina

Ole Borten Moe, olíumálaráðherra Noregs og Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra.
Ole Borten Moe, olíumálaráðherra Noregs og Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, átti í morgun fund með Ole Borten Moe, olíumálaráðherra Noregs, og kynnti honum hugmyndir sínar um að á Íslandi byggi Íslendingar, Norðmenn og Grænlendingar upp þjónustu við væntanlega olíusvæði þjóðanna norðan Íslands, þ.e.a.s. á Drekasvæðinu, Noregsmegin markalínunnar á Jan Mayen hryggnum, og við Austur-Grænland. Á öllum þessum stöðum eru vaxandi vísbendingar um olíu.

Þetta kemur fram í frétt frá utanríkisráðuneytinu.
 
Lýsti utanríkisráðherra því sjónarmiði að ekki yrði hægt að byggja mikla aðstöðu á Jan Mayen sem væri að mestu friðuð vegna náttúruverndarsjónarmiða, og taldi það óæskilegt. Sömuleiðis væri það óæskilegt frá umhverfisverndarsjónarmiðum að sækja þjónustu langan veg til Noregs eða Skotlands, og væri því Ísland hentugast frá sjónarmiði umhverfisverndar sem miðstöð þjónustu. Hann taldi jafnframt að í framtíðinni yrðu ríkin að hafa samstarf um viðbúnað til að geta leitað og bjargað mönnum sem tengdust olíuiðnaðinum á svæðunum, ss. þyrlusveitir, sem einnig gætu nýst öðrum sjófarendum um svæðið.

Lýsti áhuga á samstarfi
 
Utanríkisráðherra lýsti sérstakri ánægju með að í gærkvöldi staðfesti norska Stórþingið 25% þátttöku ríkisolíufyrirtækisins Petoro í þeim olíuleyfum sem úthlutað var á Drekasvæðinu í janúar, og með samkomulag sem hann undirritaði í gær við Espen Barth Eide, utanríkisráðherra, um samstarf á norðurslóðum, m.a. olíusamstarf.
 
Ole Borten Moe lýsti áhuga á samstarfi við Íslendinga á þessum sviðum í framtíðinni, en lagði áherslu á að Norðmenn ættu eftir að taka formlega ákvörðun um leit og vinnslu á svæðinu. Þeir hygðust nota næsta ár til að greina og afla frekari gagna, meðal annars með sýnatökum til að kanna betur jarðlög sín megin á svæðinu. Hann upplýsti að því yrði lokið 1. mars á næsta ári, Fram að þeim tíma verður unnið að frekari úrvinnslu gagna og rannsóknum.
 
Í skýrslum frá norska olíuráðuneytinu er spáð að á svæðinu megi gera ráð fyrir að finna frá 90 – 240 milljónir rúmmetra af olíu. Í þeim benda stjórnvöld jafnframt á ýmis samstarfstækifæri sem geta skapast milli ríkjanna vegna þjónustu við Jan Mayen svæðið eins og fram kemur í skýrslu olíu- og orkumálaráðuneytisins frá því í október í fyrra.

„Ég er mjög ánægður með fundi mína með norsku ráðherrunum í dag og í gær um hugsanlegt samstarf á sviði þjónustu við olíusvæðin sem ég tel að verði komin vel áleiðis fyrir 2025. Það yrði gríðarlegum búhnykkur fyrir Ísland ef hægt verður að ná sammæli um það við Norðmenn, og líka Grænlendinga, að byggja í framtíðinni upp þjónustu á Íslandi fyrir öll þau þrjú olíusvæði sem ég tel líklegt að verði þróuð norðan Íslands í framtíðinni. Fundurinn með Ole Borten Moe var sérstaklega gagnlegur af því hann skýrði mjög vel næstu skref Norðmanna gagnvart rannsóknum og þróun norska hluta Jan Mayen hryggjarins,“ sagði Össur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert