Sérstakur saksóknari hefur ákært Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, og Ívar Guðjónsson, fv. forstöðumann eigin fjárfestinga Landsbankans, fyrir að hafa tryggt „óeðlilegt verð“ á hlutabréfum í bankanum á tímabilinu frá 1. nóvember 2007 til og með 3. október 2008, samtals 228 viðskiptadaga, með kaupum á bréfum í bankanum sem „voru líkleg til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfanna ranglega og misvísandi til kynna“.
Þetta kemur fram í I. lið ákæruskjalsins á hendur sex fv. yfirmönnum og starfsmönnum bankans. Ákæran er í fjórum liðum og í þeim fyrsta er vikið að Sigurjóni og Ívari og tveim fv. samstarfsmönnum þeirra, Júlíusi Steinari Heiðarssyni og Sindra Sveinssyni, sem unnu við eigin fjárfestingar Landsbankans.
„Markaðsmisnotkunin var framkvæmd af ákærðu Júlíusi og Sindra að undirlagi ákærðu Sigurjóns og Ívars,“ segir í ákæruskjalinu, sem um er fjallað í Morgunblaðinu í dag.