Þjóðinni var heitt í hamsi árið 1974. Landhelgisdeilan við Breta var í algleymingi og landsmenn greindi á um áframhaldandi veru Bandaríkjahers, en þáverandi ríkisstjórn hugðist endurskoða varnarsamning landsins við Nato.
Það leiddi til undirskrifasöfnunarinnar Varins lands, en markmið hennar var að sýna stuðning Íslendinga við veru varnarliðsins.
Aðstandendur Varins lands bjuggust upphaflega við 5.000 - 10.000 undirskriftum, en á endanum söfnuðust 55.522 undirskriftir. Miðað var við 20 ára aldur, sem var kosningaaldurinn á þessum tíma og landsmenn voru 125.756 talsins þannig að rúm 44% Íslendinga eldri en 20 ára skrifuðu undir áskorunina.
Þær voru síðan afhentar Ólafi Jóhannessyni forsætisráðherra og Eysteini Jónssyni, forseta Alþingis, 21. mars 1974.
Undirskriftirnar voru bundnar inn í 33 bækur, utan um þær var smíðaður álkistill og á þeim 39 árum sem liðin eru frá afhendingunni hefur hann verið varðveittur í skjalageymslu Alþingis.
„Hér voru miklar ýfingar með mönnum út af utanríkismálum,“ segir Unnar Stefánsson, einn þeirra sem stóð að undirskriftasöfnuninni. Hann segir að herstöðvarandstæðingar hafi haldið því fram að meirihluti þjóðarinnar vildi ekki hafa varnarliðið hér lengur. „Ríkisstjórnin hafði samþykkt tillögu um að vísa varnarliðinu úr landi og þá fannst mörgum sér vera nóg boðið.“
Að sögn Unnars tóku nokkrir framsóknar- sjálfstæðis- og ålþýðuflokksmenn sig þá saman og efndu til undirskriftasöfnunarinnar. Um hafi verið að ræða einstaklingsframtak, frumkvæðið hafi ekki komið frá einstökum stjórnmálaflokkum.
Þeir sem stóðu að undirskrifasöfnuninni töldu einnig að það væri ekkert einkamál Íslendinga hvort hér á landi væri her, við værum hluti af alþjóðasamfélagi og hefðum skyldur gagnvart öðrum þjóðum. Til dæmis hefði Norðmönnum verið mikið í mun að Keflavíkurflugvöllur væri áfram starfræktur og að þaðan væri hægt að leita liðsstyrks ef á þyrfti að halda. „Ef til þess kæmi að Rússar réðust á Norður-Noreg. Þetta sýnir hvað hættan var talin raunveruleg,“ segir Unnar.
Hverjar urðu afleiðingar Varins lands? „Nokkrum vikum seinna var þessi ákvörðun felld úr gildi, þ.e.a.s. fallið var frá þeirri ákvörðun að vísa varnarliðinu úr landi og segja sig úr Atlantshafsbandalaginu. Ég held að þessi þjóðarvakning hafi orðið til þess að málið var lagt til hliðar,“ segir Unnar.