Par frá Vukovar í Króatíu sem sótti um hæli hér í febrúar 2010 fékk endanlega synjun í febrúar 2013, þremur árum eftir komuna. Mestallan tímann hafa þau unnið fyrir sér og greitt húsaleigu. Nú standa þau frammi fyrir því að þurfa að yfirgefa landið, nokkrum mánuðum áður en Króatía gengur í Evrópusambandið.
Stundum er talað um efnahagslega flóttamenn, fólk sem flýr bágt efnahagsástand í heimalandi sínu en fellur ekki undir alþjóðlega skilgreiningu á flóttamönnum. Stundum er líka rætt um fólk sem sækir um hæli eftir hentugleika, þ.e. fara á milli margra landa og reyna fyrir sér.
Bojana Bijelica, serbneskur Króati frá Vukovar-héraði sem hér sótti um hæli ásamt Aleksic Slavoljub, unnusta sínum, í febrúar 2010, tekur það greinilega nærri sér þegar hún er spurð hvort þau gætu fallið undir þessar skilgreiningar. Hún segist ekki skilja hvernig fólk geti hugsað svona. „Árin líða, ég er þrítug, við eigum ekki börn,“ segir hún. Þau geti hvergi komið sér fyrir og stofnað fjölskyldu. „Ef ástandið á Íslandi væri eins og við þurfum að þola í Króatíu, myndir þú halda áfram að búa þar?“ segir hún.
Í viðtalinu lýsa þau margvíslegri mismunun, fordómum, ógnunum og árás sem Aleksic varð fyrir og rekur til þess að hann er af serbneskum uppruna. Tveir menn hafi ráðist á hann á bar en lögreglan hafi brugðist við með því að handtaka hann og halda í fangaklefa næturlangt, án nokkurrar ástæðu. Hann hafi aldrei heyrt neitt frá lögreglunni um árásarmennina. Fari þau t.d. í lest verði þau að passa að tala ekki saman því serbneskir Króatar þekkist úr á hreimnum og þau nefna dæmi um tilefnislausar árásir serbneskra Króata, mismunun sem þau verði fyrir og þjóðernisrembingnum sem dynji sífellt yfir. Það sé erfitt að lýsa þessu fyrir ókunnugum og útlendingar, Þjóðverjar, Ítalir eða aðrir sjái aldrei þessa hlið á Króötum.
Bojana og Aleksic dvöldu í Bretlandi í um 10 ár, frá 1999-2009. Þar sóttu þau um hæli og dvöldu ólöglega um tíma, að því er segir í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli þeirra. Þegar hælisbeiðni þeirra var hafnað í Bretlandi fóru þau aftur til Króatíu en segja að eftir sex mánaða dvöl þar hafi þeim orðið fulljóst að þar væri þeim ekki vært. Þau hafi enga möguleika á vinnu eða félagslegri aðstoð og verði fyrir aðkasti um leið og Króatar átti sig á að þau séu Serbó-Króatar. „Ég vil ekki lifa í ótta,“ segir Bojana. Þau fóru því að kanna möguleika á að sækja um hæli í öðrum löndum og völdu Ísland vegna þess að þau lásu, á netinu, um að hér væru mannréttindi virt og ástandið gott.
Þau gáfu sig fram á lögreglustöðinni við Hverfisgötu og óskuðu eftir hæli 17. febrúar 2010. Viðtal vegna hælisumsóknar var tekið rúmlega ári síðar, í apríl 2011. Í lok október 2011 hafði Útlendingastofnun tekið ákvörðun í málinu – hælisumsókninni skyldi synja.
Í ákvörðun Útlendingastofnunar er vitnað í skýrslu Flóttamannnastofnunar Sameinuðu þjóðanna frá 2011. Þar kemur m.a. fram að króatísk stjórnvöld vinni að því að jafna rétt allra þjóðarbrota í landinu. Réttindi og bann við mismunum sé bundið í stjórnarskrá en þrátt fyrir það verði serbneskir Króatar fyrir ofbeldi annara borgara. Þeir séu stundum beittir líkamlegu ofbeldi, ókvæðsorðum beint til þeirra eða eigur þeirra skemmdar. Í sömu skýrslu kemur einnig fram að stjórnvöld handtaki og ákæri þá sem verði uppvísir að glæpsamlegri hegðun gegn serbneskum Króötum.
Í ákvörðun Útlendingastofnunar segir að engin gögn hafi fundist um að króatísk stjórnvöld mismuni borgurum Króatíu á grundvelli uppruna þeirra, þvert á móti. Unnið sé markvisst gegn mismunun minnihlutahópa.
Erfiða félagslega stöðu þeirra í Króatíu mætti ekki síst rekja til langrar dvalar í Bretlandi, þrátt fyrir að bresk stjórnvöld hafi ítrekað vísað henni þaðan.
Mat Útlendingastofnunar var að hvorugt hefði ástæðuríkan ótta við að verða ofsótt vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða stjórnmálaskoðana. Þá var ekki talin raunhæf ástæða til að ætla að hún eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í heimalandi. Með öðrum orðum: Þau uppfylltu ekki skilyrði þess að teljast flóttamenn og fengju því ekki hæli.
Í lok ákvörðunarinnar biðst Útlendingastofnun velvirðingar á því hversu langan tíma hafi tekið að afgreiða málið en það sé vegna manneklu og anna.
Ákvörðunin var kærð til innanríkisráðuneytis 1. nóvember 2011 en úrskurður þess lá ekki fyrir fyrr en 18. febrúar á þessu ári. Synjunin var staðfest
Það tók kerfið sem sagt þrjú ár að kveða upp endanlega úrskurð í máli sem virðist ekki vera ýkja flókið. Mestallan tímann hafa Aleksic og Bojana unnið fyrir sér og greitt leigu.
Um fimm mánuðum eftir komuna réðu þau sig í vinnu hjá fiskvinnslufyrirtæki í Sandgerði en hafa unnið hjá Eskju í Hafnarfirði í um tvö ár. Þar hafa þau staðið sig með miklum sóma fengið aukna ábyrgð í starfi, að því er kemur fram í yfirlýsingu frá yfirmanni þeirra. Hann mælir með því að þau fái dvalarleyfi enda geti nýtt starfsfólk ekki gengið inn í þeirra hlutverk strax. Nú standa þau frammi fyrir því að verða gert að yfirgefa landið fljótlega en þegar Króatía gengur í Evrópusambandið 1. júlí 2013 fá þau væntanlega sömu atvinnuréttindi hér eins og aðrir EES-borgarar.
Þau eru miður sín yfir niðurstöðunni. Réttindin og verndin sem þau eru sögð eiga að njóta sé aðeins til á pappírunum. Þau segjast hvergi annars staðar vilja vera en á Íslandi. Vissulega vonist þau til að geta snúið aftur 1. júlí, þegar Króatía gengur í ESB og yfirmenn hjá Eskju hafi sagt að þau fengju aftur vinnu. Þau eru þó alls ekki viss um að þeim muni takast að koma aftur, ýmislegt geti komið upp á. Og þau eru þreytt á að þurfa sífellt að byrja frá núlli. „Ég vil hvergi annars staðar vera en á Íslandi,“ segir Bojana. „Ég myndi ekki einu sinni fara í frí til Króatíu.“