Þyrlan öflugur liðsauki

„Þetta er að klárast enda fór þetta að ganga mjög vel eftir að þyrlan kom. Það munar svo miklu að geta varpað vatni af himnum ofan,“ segir Bjarni Kristinn Þorsteinsson slökkviliðsstjóri hjá Slökkviliði Borgarbyggðar í samtali við mbl.is en slökkviliðsmenn berjast enn við sinubruna við bæinn Gröf í Lundarreykjadal í Borgarfirði.

Um tíma var um mikinn eld að ræða og segir Bjarni Kristinn byggingar á svæðinu hafa verið í mikilli hættu. „Gamli bærinn var í hættu og það var bara slembilukka að hann fór ekki. Einnig var kominn eldur í tómt hesthús og tókst okkur að drepa í því,“ segir Bjarni Kristinn. Ekki er þó búið í gamla bænum en húsið er hins vegar notað sem sumardvalarstaður.

Í fyrri fréttum mbl.is um sinubrunann var ekki vitað hvort leyfi hafði verið gefið fyrir sinubruna á þessu svæði. Bjarni Kristinn gat hins vegar staðfest að leyfi hafi verið veitt.

Í fyrstu var ekki vitað um umfang eldsins en fljótlega eftir að fyrstu slökkviliðsmenn mættu á vettvang var ljóst að um mikinn sinubruna var að ræða. Var því nauðsynlegt að bregðast skjótt við og óskaði Bjarni Kristinn eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar við slökkvistörf. Alls tóku á þriðja tug slökkviliðsmanna þátt í slökkvistörfum og voru þrír dælubílar sendir á vettvang.

Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar er vel þjálfuð í að takast á við sinubruna en þyrlan sjálf er útbúin sérstakri slökkviskjólu sem hengd er neðan í hana. Virkar skjólan þannig að henni er dýft í vatn eða sjó og þannig fyllt. Rafknúið lok í botni hennar er opnað þegar yfir brunasvæði er flogið og við það tæmist fatan. Þyrlan sleppir rúmlega 1000 lítrum af vatni í hverri ferð.

Við verkið í dag sótti þyrla Landhelgisgæslunnar vatn í Grímsá og tók það þyrluna einungis um eina mínútu að sækja vatn í skjóluna, fljúga aftur að sinubrunanum og varpa vatni yfir eldhafið. 

Bændur á stóri dráttarvél með haugsugu komu einnig slökkviliðsmönnum til aðstoðar og segir Bjarni Kristinn slíka hjálp ómetanlega enda var í þessu tilfelli um að ræða 10.000 lítra haugsugu. „Það munar heilmikið um slíka aðstoð.“

Spurður hvort nauðsynlegt sé að vakta svæðið í nótt segir Bjarni Kristinn: „Við ætlum að bleyta vel útjaðrana og ef hann verður hægur þá held ég að þetta verði í lagi.“

Fyrri fréttir mbl.is um brunann við bæinn Gröf í Lundarreykjadal í Borgarfirði:

Þyrla Gæslunnar kölluð til

Sinueldur í Lundarreykjadal

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert