Þyrlan slökkti eldinn með 22.000 lítrum vatns

Þyrla Landhelgisgæslunnar við slökkvistörf í dag.
Þyrla Landhelgisgæslunnar við slökkvistörf í dag. Ljósmynd/Pétur Davíðsson

TF-Líf, þyrla Landhelgisgæslunnar sem fengin var til aðstoðar við að slökkva sinueldinn við bæinn Gröf í Lundarreykjadal í kvöld, fór 22 ferðir til að sækja vatn í slökkviskjóluna, sem er hengd neðan í þyrluna, henni síðan dýft í vatn eða sjó og þannig fyllt. 

Rafknúið lok er í botni hennar sem er opnað þegar yfir brunasvæði er flogið og við það tæmist fatan.

Þyrlan sleppir rúmlega 1000 lítrum af vatni í hverri ferð, þannig að alls hafa 22.000 lítrar vatns frá þyrlunni farið í að slökkva sinueldinn, auk þess vatns sem Slökkvilið Borgarbyggðar notaði við slökkvistörfin.

Illa gekk til að byrja með að finna vatn, þar sem Grímsá og Skorradalsvatn reyndust bæði vera frosin, en að lokum fannst vök í Grímsá sem hægt var að nota og gekk það vel, að því er kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Eftir að slökkvistörfum lauk klukkan rúmlega átta var lent á staðnum og staðan tekin með slökkviliðsmönnum. Síðan var haldið á Reykjavíkurflugvöll þar sem var lent skömmu fyrir klukkan níu.

Frétt mbl.is: Þyrlan öflugur liðsauki

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka