„Venji mig við þá tilhugsun að vera morðingi“

Rauðhólar voru meðal þeirra staða sem sakborningar í Geirfinnsmálinu sögðu …
Rauðhólar voru meðal þeirra staða sem sakborningar í Geirfinnsmálinu sögðu að lík hans væri grafið.

„Grétar [Grétar Sæmundsson rannsóknarlögreglumaður] kom og gaf margt í skyn og telur mig standa illa í málinu. Vill að ég venji mig við þá tilhugsun að vera jafnvel morðingi,“ skrifaði Guðjón Skarphéðinsson í dagbók sína í gæsluvarðhaldi vegna gruns um aðild að Geirfinnsmálinu haustið 1976.

Guðjón var síðar dæmdur fyrir aðild að málinu en í niðurstöðu skýrslu starfshóps sem kom út dag segir að í raun beri framburður hans og það að hann játaði þátttöku í málinu öll merki falskrar játningar.

Þann 12. nóvember 1976 var Guðjón handtekinn á heimili sínu, grunaður um aðild að hvarfi Geirfinns Einarssonar. Við yfirheyrslum þann dag tók hann fram að hann vissi ekkert um hvarf Geirfinns. Hann var engu að síður úrskurðaður í gæsluvarðhald daginn eftir. Í kjölfarið hófust langar og tíðar yfirheyrslur, að minnsta kosti 75 talsins í samtals tæpa sjö sólarhringa.

„Ég hlýt að vera veikur“

Í dagbók Guðjóns sem hann hélt á meðan hann var í gæsluvarðhaldi í Síðumúlafangelsinu skrifaði Guðjón hugleiðingar um minni sitt, líðan sína, sjálfsvíg, sekt og sakleysi, og refsingu og dauða.

18. nóvember 1976 skrifar Guðjón: „Stundum finnst mér ég vera sekur en get ekki munað hvað hefur gerst. Biðin er svo erfið og að hugsa um alla þá sem þykir og hefur þótt vænt um mig. Ég hlýt að vera veikur og hafa verið það lengi. Þetta er geðsjúkdómur. Viljann skortir allan styrk.“

22. nóvember skrifar hann: „Ef ég bara vissi hvort ég hefði tekið þátt í þessu eða ekki. Ég blekkti fólk það er þannig. Ég er alltaf að leika, ég er veikur maður.“

Guðjón sagði í viðtali við starfshópinn í febrúar 2012 að hann hefði aldrei verið sannfærður um að hann hefði verið viðriðinn hvarf Geirfinns, en eftir viðtöl við lögreglumenn og vettvangsferð til Keflavíkur 28. nóvember 1976 hefði hann verið 50% viss um að hann væri flæktur í málið.

Engar raunverulegar minningar

Skýrsluhöfundar benda á að Guðjón hafði aldrei neinar raunverulegar minningar um Geirfinnsmálið - þó að hann hafi talið sig flæktan í það. Hann hafi hins vegar verið þannig gerður að hann vildi hjálpa lögreglunni að leysa málið. 

 Guðjón var vistaður í einangrun í Síðumúlafangelsinu í rúmt ár eða samfellt í 420 daga og eftir því sem skýrsluhöfundar komast næst þá var hann yfirheyrður a.m.k. 75 sinnum í samtals a.m.k. 160 klukkustundir á þessum tíma. Sumar yfirheyrslurnar voru langar og dæmi eru um að hann hafi verið yfirheyrður 10 og 11 klukkustundir á dag. Þessi fjöldi yfirheyrsla og heildar tímalengd er mikil og gerði hættu á spilliáhrifum á framburð hans mjög mikla.

Það sem leiddi til þess að Guðjón gaf að lokum framburð um aðild sína að Geirfinns-málinu er sambærilegt því sem gerðist í Birgitte Tengs málinu í Noregi, þar sem ungur maður gaf falska játningu á morði eftir miklar yfirheyrslur og einangrunarvist, segir í skýrslu samstarfshópsins.

Bæði Guðjón og ungi maðurinn í Birgitte Tengs málinu voru vel greindir og vel menntaðir þegar þeir voru settir í einangrun og yfirheyrðir mörgum sinnum yfir langan tíma, þeir voru báðir ákafir við að aðstoða lögregluna við að leysa málið, báðir höfðu vantrú á eigin minni og urðu auðveldlega fyrir áhrifum af frásögnum og tillögum lögreglunnar.

Eftir að hafa farið vandlega yfir gögn þau er liggja til grundvallar þessari skýrslu þá teljum við það hafið yfir allan skynsamlegan vafa, að framburðir Guðjóns í Geirfinns-málinu, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, voru óáreiðanlegir. Í raun ber framburður Guðjóns í Geirfinnsmálinu og það að hann játaði þátttöku í málinu öll merki falskrar játningar, segir í niðurstöðu starfshópsins.

Skýrsla starfshóps um Guðmundar og Geirfinnsmál er ítarleg.
Skýrsla starfshóps um Guðmundar og Geirfinnsmál er ítarleg. mbl.is/Rósa Braga
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert