Mikill sinubruni er nú í Lundarreykjadal í Borgarfirði og leggur þykkan reykjarmökk yfir nærliggjandi svæði. Fyrr í dag greindi mbl.is frá því að lögregla og slökkvilið væru á leið á staðinn. Umfang brunans lá þá ekki ljóst fyrir en samkvæmt heimildum mbl.is er um talsvert mikinn eld að ræða.
Slökkvilið Borgarbyggðar berst nú við sinueldinn og hefur Bjarni Kristinn Þorsteinsson slökkviliðsstjóri óskað eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar við slökkvistörfin. Þetta staðfesti stjórnstöð Landhelgisgæslunnar fyrir skömmu. Samkvæmt upplýsingum þaðan er þyrlan rétt ókomin á vettvang og mun áhöfn hennar notast við sérstaka slökkviskjólu við verkið.
Skjólan, sem hengd er neðan í þyrluna, virkar þannig að henni er dýft í vatn eða sjó og þannig fyllt. Rafknúið lok í botni hennar er opnað þegar yfir brunasvæðið er flogið og við það tæmist fatan. Þyrlan sleppir rúmlega 1000 lítrum af vatni í hverri ferð.
Þegar mbl.is náði tali af lögreglumönnum fyrr í dag voru þeir á leið á vettvang og gátu ekki gefið upplýsingar um hvort leyfi hafi verið gefið fyrir sinubrunanum. Vitað er af húsum nærri brunanum en ekki er vitað hvort þau séu í hættu.
Ekki náðist í lögreglu- eða slökkviliðsmenn á svæðinu og liggja því frekari upplýsingar ekki fyrir að svo stöddu.