Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út í gær til þess að hjálpa til við að ráða niðurlögum mikils sinuelds sem geisaði við bæinn Gröf í Lundarreykjadal í Borgarfirði. Á tímabili voru byggingar í mikilli hættu af eldinum.
„Gamli bærinn var í hættu og það var bara slembilukka að hann fór ekki. Einnig var kominn eldur í tómt hesthús og tókst okkur að drepa í því,“ sagði Bjarni Kristinn Þorsteinsson, slökkviliðsstjóri hjá slökkviliði Borgarbyggðar í gærkvöldi. Alls tók á þriðja tug slökkviliðsmanna þátt í slökkvistarfinu og voru þrír dælubílar sendir á vettvang.
Í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að bóndi á bænum hafði fengið leyfi til að kveikja í sinu en eldurinn fór hins vegar úr böndunum og lagði þykkan reykjarmökk yfir nærliggjandi svæði af honum.