„Kemur vonandi heim fyrir páska“

Þóra og Davíð Örn.
Þóra og Davíð Örn. mbl.is

„Hann kemur vonandi heim fyrir páska,“ segir Þóra Björg Birgisdóttir, sambýliskona Davíðs Arnar Bjarnasonar sem laus er úr farbanni í Tyrklandi. Enn á eftir að afgreiða pappírsvinnu þannig að hann komist úr landi en parið vonar að það geti gerst í dag. Þá verður um leið keypt flugfar fyrir Davíð.

Eins og kunnugt er voru Þóra og Davíð í fríi í Tyrklandi. Hann var handtekinn á leið úr landi í byrjun mánaðar sakaður um að hafa ætlað að taka með sér fornmuni. Eftir að hann var látinn laus þurfti hann engu að síður að sæta farbanni. Því hefur nú verið aflétt.

Parið var búsett í Svíþjóð en eftir að málið kom upp flutti Þóra heim með börn þeirra þrjú. „Maður vissi í raun ekkert hvað myndi gerast og leigusamningurinn okkar var að renna út. Það var eiginlega ekki inni í myndinni að leita að íbúð úti, ein með þrjú börn. En svo veit maður aldrei nema við förum aftur út,“ segir Þóra.

Sökum þessa stefnir Davíð á að koma heim til Íslands. Ekki er flogið beint frá Tyrklandi og spurð að því hvaða leið hann ætli að fara segir Þóra: „Ef pappírarnir fara í gegn í dag kaupum við bara flug eitthvert. Hann ætlar bara að koma sér úr landi.“ Hún bætir við að líklegast sé þó að hann kaupi flugferð til Kaupmannahafnar og freisti þess að komast til Íslands þaðan fyrir páska.

Þóra heyrði í Davíð í morgun en þá var hann að bíða eftir því að heyra frá lögfræðingi sínum. Hún segir að ef pappírarnir fara ekki í gegn í dag sé þó ólíklegt að það gerist fyrir páska. Um sé að ræða eins konar tilkynningu um að hann megi fara úr landi þannig að hann verði ekki tekinn á flugvellinum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert