Upplifði meðferðina sem pyntingar

Kristján Viðar Viðarsson dró játningu sína í Guðmundar og Geirfinnsmálinu …
Kristján Viðar Viðarsson dró játningu sína í Guðmundar og Geirfinnsmálinu til baka án þess að mark væri tekið á því fyrir dómi.

Kristján Viðar Viðarsson, sem ásamt Sævari Ciesielski var dæmdur í ævilangt fangelsi fyrir að hafa svipt Guðmund Einarsson og Geirfinn Einarsson lífi, sætti gæsluvarðhaldi í samtals 1.522 daga, þar af 502 daga eða tæp tvö ár í einangrun. Viðnám hans brotnaði og hann játaði vegna vegna vangetu til að takast á við einangrunarvistina og yfirheyrslurnar.

Þetta er niðurstaða sálfræðimats starfshópsins sem kynnti skýrslu sína um Guðmundar- og Geirfinnsmálið í gær. Fram kemur í skýrslunni að Kristján Viðar var vistaður óhóflega lengi í einangrun og oft yfirheyrður án þess að tekin væri skýrsla. Samtals var hann yfirheyrður í a.m.k. 215 klukkustundir (tæpa 9 sólarhringa) en gera má ráð fyrir að heildartíminn sé mun lengri.

Aðstæðurnar voru honum greinilega mjög erfiðar og leiddu til þess að hann játaði aðild að hvarfi og dauða Guðmundar og Geirfinns með mjög vafasömum framburði, sem hann dró síðan til baka, þó ekkert mark virðist hafa verið tekið á því hvorki af rannsakendum né fyrir dómi.

Erfið æska eftir föðurmissi

Kristján Viðar veitti starfshóp innanríkisráðuneytisins viðtal í febrúar 2012. Fram kemur í skýrslunni að hann hafi verið samvinnuþýður og virst bæði einlægur og viðkvæmur, en átt erfitt með að tala vegna þess að hann var stressaður. Hann tók það fram strax í upphafi viðtalsins að hann væri saklaus í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.

Kristján Viðar mun hafa átt erfiða æsku. Í viðtalinu sagði hann frá því hve mikil áhrif það hafði á hann þegar faðir hans fórst með togaranum Júlí þann 8. febrúar 1959. Kristján Viðar var þá fjögurra ára og sagðist hann hafa kennt sjálfum sér um dauða föður síns. Samskipti hans við fósturföður voru erfið.

Líf Kristjáns Viðar einkenndist fljótt af óhófsneyslu víns og vímuefna. Aðeins 11 ára mun hann hafa byrjað að sniffa þynni og bensín til að „upplifa ofskynjanir“. Hann var rekinn úr skóla í 1. bekk Gagnfræðaskóla Austurbæjar. Í geðrannsókn sem gerð var á honum 1976 segir að Kristján Viðar hafi frá 17 ára aldri verið í mikilli neyslu og aflað sér tekna með afbrotum. 

Hann var, líkt og Sævar Cicielski, aðeins tvítugur að aldri þegar grunur féll á hann vegna hvarfs Guðmundar og Geirfinns. Þegar Kristján Viðar hafði verið tæp tvö ár í gæsluvarðhaldi lést móðir hans en í viðtalinu sagðist hann ekki hafa fengið að vita af því fyrr en viku síðar.

Fangaverðir og lögregla hrintu honum á milli sín

Kristján Viðar var í afplánun á Litla-Hrauni á 6 mánaða fangelsisrefsingu fyrir þjófnað og nytjastuld þegar hann var fluttur í Síðumúlafangelsið 23. desember 1975 og yfirheyrður vegna hvarfs Guðmundar Einarssonar. Þetta var daginn eftir að Sævar Ciesielski játaði fyrst á sig aðild að málinu.

Í viðtali við starfshópinn í fyrra sagði Kristján Viðar að þegar hann kom í Síðumúlafangelsið hafi verið þar óvenjumikið af fangavörðum og lögreglumönnum. Þeir hafi myndað um hann hring og hrint honum á milli sín í 10-15 mínútur eða þar til Örn Höskuldsson, fulltrúi yfirsakadómara, stöðvaði það. 

Gripinn „drápslosta“

Þetta er fyrsta dæmið um neikvæð viðhorf rannsakenda til Kristjáns Viðars, en starfshópur innanríkisráðuneytisins nefnir fleiri dæmi. Í lokaskýrslu rannsóknarnefndar Reykjavíkur um Geirfinnsmálið er Kristjáni Viðari t.d. lýst þannig að hann sé „sjúklega sannfærður um líkamlega yfirburði sína gagnvart öðrum“ og að hann geti verið „gripinn nokkurskonar „drápslosta“.“

Í skýrslunni sem kom út í gær kemur fram líklegt sé að hæð Kristjáns Viðars og líkamlegur styrkur hans, í bland við andfélagsleg persónuleikaeinkenni, hafi haft áhrif á viðhorf og framkomu fangavarða og rannsakenda í hans garð. Þetta kunni að hafa skapað ótta og vantraust fangavarða gagnvart honum, á sama tíma og það faldi undirliggjandi sálræna veikleika hans sem án efa ollu honum mikill vanlíðan.

Látinn skríða á fjórum fótum á klósettið

Líkt og Sævar var Kristján Viðar sviptur svefni í Síðumúlafangelsi. Barið var á klefahurðina hans í tíma og ótíma og ýtt við honum ef hann sofnaði. Þá sagðist hann hafa verið látinn skríða á fjórum fótum á salerni í fangelsinu og honum jafnvel ekki leyft að ljúka sér af áður en hann var rekin til baka í klefann. Við leit í klefa hans var Kristján Viðar látinn afklæðast og bíða nakinn í öðrum klefa. 

Allar þessar aðgerðir áleit Kristján Viðar vera pyntingaraðferðir til þess gerðar að brjóta hann niður. Hann sagði starfshópnum í viðtalinu að honum hafi liðið mjög illa í Síðumúla. Hann hafi verið ruglaður á þessum tíma og ekki getað gert greinarmun á því sem var raunverulegt og óraunverulegt.

Óáreiðanlegur framburður

Starfshópur innanríkisráðuneytisins telur hafið yfir allan skynsamlegan vafa að framburðir Kristjáns Viðars í Guðmundar- og Geirfinnsmáli voru óáreiðanlegir. Átta þættir eru taldir hafa ráðið úrslitum um að hann játaði aðild að málunum.

1. Persónuleikavandamál: Niðurstaða geðrannsóknar á þeim tíma var að Kristján Viðar ætti við alvarleg vímuefnavandamál að stríða, væri „tilfinningalega vanþroska“ og með andfélagsleg persónuleikaeinkenni sem kæmu fram í „aggressívri“ hegðun. Rannsóknir hafa sýnt að slíkt eykur líkur á fölskum játningum.

2. Lítil mótstaða: Kristján Viðar virðist hafa átt mjög erfitt með að takast á við aðstæður sínar og stundum hafa verið í örvæntingarástandi. Hann gerði a.m.k. 2 sjálfsvígstilraunir. Slíkt örvæntingarástand er oft merki alvarlegs vonleysis og gerir einstakling afar viðkvæman og mótstöðulítinn.

<strong>3. Langt gæsluvarðhald og yfirheyrslur:</strong>

Kristján Viðar var yfirheyrður mjög oft og stundum lengi í einu, samtals a.m.k. 160 sinnum. Oft var ekki skýrsla skrifuð. Þá var hann a.m.k. 18 sinnum tekinn til sannprófunar, 4 sinnum í sakbendingu og 22 sinnum í ferð út úr fangelsinu. Svo mikill fjöldi yfirheyrsla gerir hættu á spilliáhrifum og óáreiðanlegum framburði mjög mikla.

4. Þrýstingur: Þessar mörgu og stundum löngu yfirheyrslur og afbrigðilega löng einangrunarvist gefa til kynna að hann hafi játað til þess að losna undan þrýstingi. Þetta skýri jafnframt hvað hann gaf marga, óljósa og mismunandi framburði.

5. Ruglaður: Kristján Viðar virðist hafa verið orðinn mjög ruglaður í báðum málunum og bar við minnisleysi um sakarefnin. Geðlæknir lýsti því þannig að „svo virðist sem raunveruleiki og óraunveruleiki blandist saman“ hjá honum. Lýsingar hans á atburðum einkennast oft af fyrirvörum s.s. „ég tel mig ekki viðriðinn“, „að ég held“ og „ég man ekki betur“. Í byrjun mars 1977 dró hann játningu sína til baka en játaði svo aftur viku síðar eftir 4 yfirheyrslur sem stóðu í 7 klukkustundir hver.

6. Neikvæð viðhorf: Kristján Viðar sagðist sjálfur hafa verið beittur illri meðferð bæði í Síðumúlafangelsi. Fyrir liggur að staðfesting fangavarðar á því að ekki hafi alltaf verið farið vel með sakborningana og að áherslan hafi verið á að brjóta niður viðnámsþrótt þeirra til að fá fram játningar.

7. Lítill stuðningur: Kristján Viðar virðist hafa haft takmarkaðan stuðning af lögmanni sínum. Rannsakandi virðist hafa verið viðstaddur flest samtöl þeirra og stundum var lögmaðurinn ekki viðstaddur skýrslutökur. Vísbendingar um að honum hafi verið neitað um að hitta lögmann sinn.

Eitthvað sem þau vissu sennilega ekkert um

Lífstíðardómurinn yfir Kristjáni Viðari var mildaður í hæstarétti árið 1980 í 16 ára fangelsisdóm. Þótt starfshópur innanríkisráðuneytisins komist að þeirri niðurstöðu að játningar hafi verið óáreiðanlegar eða falskar tekur hann ekki afstöðu til þess hvort þau sem hlutu dóm hafi verið ranglega sakfelld.

Engu að síður segir í skýrslunni að starfsaðferðirnar sem beitt var, hin langa gæsluvarðhaldsvist og fjöldi yfirheyrslna, veki spurningar um eðli rannsóknarinnar:

„[Þ]ar sem áherslan virðist hafa verið á að samræma frásagnir fólks um eitthvað sem það vissi sennilega ekkert um, og niðurstöðuna um hvað varð í raun og veru um þessa tvo menn.

Um sálfræðilegt mat á áreiðanleika framburðar Kristjáns Viðars má lesa í kafla 19.2.3. í skýrslunni um Guðmundar- og Geirfinnsmálið.

Kristján Viðar Viðarsson sést hér í fygld lögreglumanna.
Kristján Viðar Viðarsson sést hér í fygld lögreglumanna.
Kristján Viðar Viðarsson í réttarsal, þar sem hann var dæmdur …
Kristján Viðar Viðarsson í réttarsal, þar sem hann var dæmdur í ævilangt fangelsi vegna Guðmundar- og Geirfinnsmálsins.
Skýrslan Guðmundar- og Geirfinnsmálið er tæpar 500 blaðsíður.
Skýrslan Guðmundar- og Geirfinnsmálið er tæpar 500 blaðsíður. mbl.is/Rósa Braga
Starfshópur um Guðmundar- og Geirfinnsmál leggur til að málin verði …
Starfshópur um Guðmundar- og Geirfinnsmál leggur til að málin verði tekin upp á ný. mbl.is/Rósa Hildur Bragadóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert