Þrátt fyrir að farbanninu yfir Davíð Erni Bjarnasyni hafi verið aflétt í fyrradag, er hann enn fastur í Tyrklandi þar sem hann bíður eftir nauðsynlegum pappírum sem eiga að heimila för hans. Óljóst er hvenær það verður og því liggur ekki fyrir hvenær hann kemst heim til fjölskyldu sinnar.
„Hann er enn að bíða eftir pappírunum sem hann þarf til að geta yfirgefið landið, það þarf að geta út yfirlýsingu á allar lögreglustöðvar í landinu um að hann megi fara úr landi og mér skilst að það geti tekið nokkra daga,“ segir Þóra Björg Birgisdóttir sambýliskona Davíðs Arnar. Hún segir hann vera farinn að ókyrrast og að hann þrái að komast heim.
„Það er auðvitað erfitt að vera búinn að fá leyfi til að fara heim og komast svo ekki heim,“ segir Þóra.
Davíð og Þóra voru í fríi í Tyrklandi þegar hann var handtekinn á leið úr landi, sakaður um að hafa ætlað að taka formun úr landi, en hann hafði keypt marmarastein í góðri trú af götusala. Hann var í fangelsi í tæpa viku, en var síðan leystur úr haldi og settur í farbann sem átti að standa til 25. apríl. Þau voru búsett í Svíþjóð ásamt þremur börnum sínum en eftir að málið kom upp flutti Þóra hingað heim með börnin.
Að sögn Þóru heldur Davíð ennþá til í íbúð í Antalya sem góðhjartaðir Íslendingar lánuðu honum fyrir tveimur vikum síðan. „Við erum bara að bíða, það er ekki hægt að gera neitt annað eins og staðan er núna,“ segir hún.