„Við erum að fara yfir daginn og viðbrögðin í stjórn slökkviliðsins, vinnunni þar er í sjálfu sér ekki lokið. Síðan munum við taka þetta fyrir í almannavörnum í apríl. Málið er í raun í ferli inni í þessum nefndum,“ segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri og framkvæmdastjóri almannavarnarnefndar höfuðborgarsvæðisins, en viðbragðsaðilar fara nú yfir viðbrögð vegna óveðursins 6. mars síðastliðinn.
Í óveðrinu fóru samgöngur úr skorðum og áhrifin voru mikil á höfuðborgarsvæðinu þar sem umferðarþunginn er mestur. Stofnæðar lokuðust, bæði vegna ófærðar og vegna bíla sem sátu fastir. Skólastarf fór víða úr skorðum og raskanir urðu í atvinnulífinu. Hinsvegar fóru börn í skóla, enda ekki tilkynnt um annað. Gríðarlegt álag skapaðist á alla viðbragðsaðila, ekki síst vegna þess að óveðrið kom að einhverju leyti á óvart.
Jón Viðar segir að höfuðborgarsvæðið hafi verið í hálfgerðum „bómul“ í langan tíma, veðurfarslega séð. „Svo kemur þetta skot hérna í einn dag, sem er ansi kröftugt og sýnir að viðbúnaðurinn verður að vera öflugri en hann kannski var. Við þurfum að fínslípa ýmsa ferla hjá okkur,“ segir Jón Viðar en bætir við að margt hafi gengið vel.
Spurður um atriði sem mætti huga betur að nefnir Jón að nauðsynlegt sé að byggja upp betri aðstöðu fyrir aðgerðastjórn á höfuðborgarsvæðinu, auk þess sem rýna þurfi í skipulag varðandi upplýsingar um skólahald sem að einhverju leyti hafi verið misvísandi þennan dag. Flest börn fóru í skólann þennan dag en eitthvað bar á misvísandi skilaboðum til foreldra um að sækja börnin eða halda sig heima. Jón segir að verið sé að taka saman upplýsingar og yfirfara, eftir páska verði farið yfir málin með fræðsluyfirvöldum og öðrum sem málið snerti.
Jón nefnir að samskipti við fjölmiðla hafi verið til fyrirmyndar, þeir hafi komið fyrirmælum og tilkynningum til skila á góða máta. Þá hafi viðbragðsaðilar nýtt sér samskiptamiðla, t.a.m. hafi lögreglan verið með mjög öflugar Facebook-færslur úr samhæfingarmiðstöðinni, það sé klárlega eitthvað sem hægt sé að þróa í framtíðinni. Jón sér fyrir sér að binda þurfi allar hinar nýju leiðir til að veita upplýsingar í einhverskonar verklag, m.a. með samfélags- og netmiðla í huga. Ljóst sé að margir leiti í fréttamiðla á netinu að upplýsingum þegar svona stendur á. „Ég held að engin ein leið sé sú eina rétta, við þurfum að vera með mörg járn í eldinum og ekki má gleyma að það er stór hópur fólks sem treystir á útvarpið,“ ítrekar Jón Viðar. „En það er eitt sem stendur upp úr að mér fannst í þessari aðgerð og kom mér ekki á óvart, það er hversu björgunarsveitirnar okkar eru ofboðslega kröftugar,“ segir Jón Viðar og ítrekar hversu mikilvægur hlekkur þær eru.
Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, segir að verið sé að fara yfir aðgerðir á óveðursdaginn. Í ljós hafi komið að skýra þurfi skilaboð frá almannavarnardeildinni aðeins nánar. Tryggja þurfi að allir viðbragðsaðilar séu samtaka í upplýsingagjöfinni. „Yfirleitt hefur það gengið vel en við þurfum aðeins að skerpa á,“ segir Víðir.