Miðvikudagskvöldið 27. mars 1963 kl. 23:16 varð vart jarðskjálfta um meginhluta landsins. Hann hefur verið talinn hafa verið 7 stig á Richterkvarða – einn sá stærsti á síðustu öld. Upptökin reyndust vera í mynni Skagafjarðar og var skjálftinn því sterkastur í nálægum byggðarlögum. Næst upptökunum fannst fólki hann standa í meira en tvær mínútur, að því er fram kemur á vefnum Siglfirðingur.
Annar sterkur skjálfti fannst kl. 23:27. Á annan tug kippa fundust greinilega um nóttina og morguninn, meðal annars tveir rétt fyrir miðnætti, einn hálfri stundu síðar, einn á fimmta tímanum um nóttina, einn rétt fyrir klukkan átta um morguninn og einn hálfri klukkustund síðar.
Á Siglufirði léku hús á reiðiskjálfi og flest lauslegt fór á hreyfingu. „Við fyrsta kippinn slokknuðu ljós og kirkjuklukkur hringdu sjálfkrafa. Nokkur hræðsla greip um sig meðal fólks í bænum svo að það yfirgaf hús sín um stundarsakir og margir vöktu alla nóttina til að vera við öllu búnir,” sagði í Morgunblaðinu.