Við að heyra orðin „Ísland“ og „eldfjall“ vakna slæmar minningar um öngþveiti á flugvöllum hjá mörgum. Það er því ekki nema að von að í erlendum fjölmiðlum sé reynt að svara spurningunni hvort að Hekla sé að rumska og hvort annað öskuský sé á leiðinni.
Er Eyjafjallajökull gaus árið 2010 lömuðust flugsamgöngur víða í Evrópu og flugumferð víða um heim komst í uppnám. Kostnaður flugfélaganna og ferðalanga var auk þess gríðarlegur.
Í grein á vef International Business Times er m.a. fjallað um það að Eyjafjallajökull hafi spúð ösku sinni óvenju hátt í loftið - annað hafi til að mynda verið uppi á teningnum í Grímsvatnagosinu árið 2011. Meira af gosefnum hafi þá komið upp á 36 klukkustundum en á heilum mánuði í Eyjafjallajökulsgosinu. Áhrif á flugsamgöngur voru þó lítil.
Í fréttinni segir að Hekla hafi verið þekkt sem „hlið vítis“ á öldum áður og að hún sé þekktasta og virkasta eldfjall Íslands.
Haft er eftir Páli Einarssyni, jarðvísindamanni, úr viðtali frá því árið 2011, að Hekla hafi gosið á um tíu ára fresti frá því 1970. Ekkert þeirra gosa hafi valdið vandræðum fyrir ferðaþjónustuna.
Hins vegar er tekið fram að Hekla sé ólíkindatól, sum gosin hafi verið stór, t.d. það sem varð árið 1947.