Börnum hent úr strætó um miðnætti

Þremur 15 ára stúlkum var í gær vísað úr strætisvagni á leið heim úr ísbúð. Vagnstjórinn sakaði eina þeirra um að hafa reynt að greiða með hálfum, og þar af leiðandi ógildum, strætómiða fyrir farið. Stúlkurnar neita alfarið að hafa ætlað að svindla sér um borð í vagninn.

Sylvía Hall, ein stúlknanna, kvartaði af þessu tilefni á Facebook-síðu Strætó, en færslunni, og annarri sem Sylvía setti inn á síðuna, hefur nú verið eytt við lítinn fögnuð þeirra sem fylgjast með síðunni. Sylvía er mjög ósátt við framgang vagnstjórans og Strætó í málinu.

„Við vinkonurnar ætluðum að fá okkur ís af því það er páskafrí í skólanum. Þegar við ætluðum heim aftur með strætó með vagni sem kom rúmlega 11 að kvöldi, þá göngum við tvær inn. Sú þriðja er hins vegar stoppuð og vagnstjórinn sakar hana um að hafa greitt með hálfum miða, sem sagt miða sem búið er að kljúfa í tvennt,“segir Sylvía Hall.

„Við tvær sem vorum komnar inn látum hana hafa nýjan miða til að greiða með, en vagnstjórinn heldur fram að hún hafi verið með hálfan miða og ætlað að svindla sér í vagninn. Vinkona mín þvertekur fyrir það og segist ekki hafa vitað að miðinn væri svona. Þá byrjar vagnstjórinn að saka mig líka um að hafa greitt með svona miða, en hann hafði áður skoðað hann vandlega þegar ég greiddi fyrir mig,“ segir Sylvía.

Miklar undirtektir vegna athugasemda Sylvíu

„Mér fannst þetta mjög óþægilegt því vagnstjórinn var mjög dónalegur og hávær. Síðan hringir hann í stjórnstöð og tekur sérstaklega fram að það séu unglingar sem neiti að yfirgefa vagninn, þrátt fyrir að ég hafi boðist til að greiða fyrir hana með nýjum miða. Hann þvertók fyrir það. Aðrir farþegar í vagninum voru byrjaðir að hvetja hann til að leyfa okkur að fara um borð, en hann henti okkur þremur samt út og segir að við getum beðið eftir næsta strætó, sem kæmi eftir hálftíma,“ segir Sylvía.

Þegar Sylvía kom heim, eftir að hafa þurft að bíða í hálftíma eftir öðrum vagni, skrifaði hún athugasemd um þetta á vef Strætó, sem hátt í 1.500 manns líkaði við, að sögn Sylvíu, áður en færslan var tekin út.

„Eftir að þetta var tekið út fékk ég svo svör á Facebook um að svona lagað ætti ekki heima á síðunni þeirra, því þau vilja örugglega ekki að svona lagað sé gert opinbert. Ég er beðin um að fylla út skýrslu um atvikið og bendir á að vagnstjórnar hafi heimild til að vísa fólki út við þessar aðstæður,“ segir Sylvía.

Eftir að hafa þrætt við starfsmann Strætó gegnum Facebook fékk Sylvía engin svör nema þau að vagnstjórar hefðu heimild til að gera þetta. „Mér var sagt, af því svona svindl væri mikið vandamál þá mættu vagnstjórar gera þetta og að einhver myndi hafa samband við mig eftir páska,“ segir Sylvía.

„Ég setti líka inn aðra færslu þar sem ég gagnrýndi að þau hefðu tekið út fyrri færsluna, en henni var líka eytt af því að „kommentin þar undir voru farin alveg úr böndunum og farin að snúast um margt annað en það sem kemur Strætó við,“eins og starfsmaður Strætó sagði við mig. Svo er mér sagt að Facebook-síða Strætó sé ekki rétti vettvangurinn til að viðra svona vandamál. Miðað við viðbrögðin sem þetta fékk hjá mér er þetta greinilega ekkert einsdæmi,“ segir Sylvía.

Viðbrögð í takt við reglur

„Þetta er réttmæt kvörtun frá henni, og hún hafði fengið upplýsingar um að samband yrði haft við hana. Þannig vinnum við þetta mál. Þessi þráður fór hins vegar að snúast um allt annað,“ segir Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó. Aðspurður segir Reynir að mögulega hefði verið réttara að eyða þeim ummælum sem þóttu óviðeigandi.

„Viðbrögð vagnstjórans eru hins vegar í takt við okkar reglur. Við lendum oft farmiðafölsunum sem þessum og við lítum þannig atvik mjög alvarlegum augum,“ segir Reynir. „Ég var náttúrlega ekki á staðnum til að meta hvort viðbrögðin hafi á einhvern hátt hafi verið yfirdrifin. Það er líka alltaf spursmál hvort fólk eigi að geta dregið fram heilan miða eftirá til að borga þegar kemst upp um það, án þess að ég fullyrði nokkuð um að þessi stúlka hafi ætlað að svindla.“

Sylvía Hall
Sylvía Hall mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert