„Eðalgóð stemning“ í Hlíðarfjalli

Aðstæður í Hlíðarfjalli til skíða- og brettaiðkunar verða mjög góðar …
Aðstæður í Hlíðarfjalli til skíða- og brettaiðkunar verða mjög góðar yfir páskana mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Stemningin hér er eðalgóð, ekki ský á himni og sólin í sínu besta formi,“ segir Guðmundur Karl Jónsson, forstöðumaður skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli. „Hér eru ríflega 2.000 manns á skíðum og brettum og mikil og góð stemning. Færðin er alveg frábær og allar aðstæður til skíðaiðkunar eins og best verður á kosið.“

Guðmundur sagði að í gær hefði verið tekin í notkun ný vefmyndavél í Hlíðarfjalli, þannig að hver sem er getur séð stemninguna með eigin augum. Stóra myndavélin efst uppfærist á klukkutíma fresti, en sú fyrir neðan á mínútu fresti.

„Annars hefur allt gengið ljómandi, umferðin gengur vel og í svona góðu veðri gengur allt betur. Biðin í Fjarkanum er kannski 12-14 mínútur, en fólk kippir sér lítið upp við það. Þegar veðrið er svona gott þá er fólk líka minna að stressa sig á að vera að renna sér allan daginn, heldur slappar meira af og nýtur veðurblíðunnar,“ segir Guðmundur. „Gestirnir okkar eru svona 95% Íslendingar, en þó eru til dæmis tvær færeyskar fjölskyldur sem komu með Norrænu í brekkunum hjá okkur.“

Blaðaútgefandi, jaðaríþróttamenn og frambjóðendur í fjallinu

Guðmundur sagði að von væri á þekktum erlendum blaðaútgefanda sem hættur væri að starfa, og hefði það fyrir áhugamál að skíða á sem flestum skíðasvæðum heimsins. „Hann verður hér að flakka á Norðurlandinu um helgina og sagðist ætla í Bláfjöllin á bakaleiðinni,“ segir Guðmundur. 

„Svo er hérna líka hópur á vegum skíðakvikmyndafyrirtækisins Warren Miller. Þeir luku tökum á bíómynd í gær sem verður frumsýnd í haust. Á laugardaginn verður svokallað Après-ski milli þrjú og fimm, þar sem fólk kemur saman og dansar við dúndrandi tónlist í skíðagallanum og drekkur kakó með. Á sunnudaginn munu svo þingframbjóðendur í kjördæminu keppa í samhliðasvigi hjá okkur. Það verður örugglega æsispennandi,“ segir Guðmundur Karl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert