Tollvörður laus úr gæslu

Tollvörður sem setið hefur í gæsluvarðhaldi frá 21. febrúar í tengslum við rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á umfangsmiklu fíkniefnamáli hefur verið látinn laus.

Tveir karlmenn á fertugsaldri sem hafa verið í haldi lögreglu vegna málsins síðan í janúar, voru úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald til 19. apríl á grundvelli almannahagsmuna.

Málið snýst um innflutning á 20 kg af amfetamíni og 1,7 lítra af amfetamínbasa, en ætla má að með amfetamínbasanum hefði verið hægt að framleiða 17 kg af amfetamíni.

Efnin voru send í nokkrum póstsendingum til landsins. Starfsmenn tollyfirvalda með aðstoð fíkniefnaleitarhunda fundu efnin í janúar, en málið hefur verið unnið í góðri samvinnu lögreglu við tollyfirvöld, sem og dönsk lögregluyfirvöld, segir í tilkynningu frá lögreglunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert