Til þess að forðast áhlaup á bankana á Kýpur hefur gjaldeyrishöftum verið komið á í landinu ekki ósvipuðum þeim sem Íslendingar þekkja af eigin raun. Í grein sem Jón Daníelsson, hagfræðingur, ritar bendir hann á að höftin hafi átt að gilda í örfáa mánuði á Íslandi en þau séu enn í gildi, fimm árum síðar, og ef eitthvað er þá hafi þau verið hert.
Í grein Jóns sem birtist í CityAM kemur fram að stjórnvöld á Kýpur segi að þær ráðstafanir sem gripið sé til eigi að vera tímabundnar. Vonast greinarhöfundur til þess að það reynist raunin.
Gefur til kynna að stjórnvöld hafi misst tökin
„Þegar land setur á gjaldeyrishöft gefur það til kynna að stjórnvöld hafi misst tökin á efnahag landsins. Allir sem eigi peninga reyni að að leita leiða til að yfirgefa sökkvandi skip eins fljótt og auðið er og þannig verður það þar til fjármagnseigendur telja að ástandið hafi batnað,“ segir Jón meðal annars í greininni.
Hann segir að sýnt sé að gjaldeyrishöftin á Íslandi hafi skemmt fyrir efnahagskerfinu. Fjárfestingar hafi hrunið og séu með því minnsta sem gengur og gerist í Evrópu eða 14,3% af vergri landsframleiðslu í ár samanborið við 18% að meðaltali í ríkjum Evrópusambandsins.
Reiða sig nú á olíufund
Beinar erlendar fjárfestingar hafa nánast þurrkast upp og þeir Íslendingar sem eigi peninga reyni að halda hlutunum þannig að þeir geti flutt þá úr landi þegar tækifæri gefst. Nú reiði Íslendingar sig á að finna olíu.
Á sama tíma og gjaldeyrishöftum sé ætlað að koma í veg fyrir útflæði fjármagns þá munu þeir sem vilja fara með fé úr landi finna til þess leiðir - löglegar sem ólöglegar. Niðurstaðan er leikur kattarins og músarinnar milli stjórnvalda og fjármagnseigenda, þar sem niðurstaðan er stjórnvöldum í óhag. Þetta leiðir til þess að höftin eru hert enn frekar sem býr til jarðveg fyrir spillingu.
Jón bendir á í grein sinni að gjaldeyrishöftunum á Íslandi hafi einungis verið ætlað að gilda í nokkrar vikur og um neyðarráðstöfun hafi verið að ræða. En því lengur sem höftin gilda því erfiðara verður að losa þau. Hagkerfið lagar sig að þeim og þau verða hluti af viðvarandi landslagi. „Við getum einungis vonað fyrir hönd Kýpurbúa að höftin þar verði einungis tímabundin,“ segir Jón Daníelsson, forstöðumaður rannsóknarseturs um kerfislæga áhættu á fjármálamörkuðum við London School of Economics (LSE).