Davíð Örn Bjarnason, sem handtekinn var og færður í fangelsi í Tyrklandi, vegna gruns um fornmunasmygl, kemur heim á morgun. Þær fréttir fékk hann í morgun og segist hann yfir sig glaður yfir því að fá að hitta fjölskyldu sína.
Davíð var stöðvaður á flugvellinum í Antalya í Tyrklandi þann 10. mars er hann var á leið til síns heima í Svíþjóð eftir að hafa verið í fríi í Tyrklandi ásamt Þóru Björgu Birgisdóttur, sambýliskonu sinni. Hann var í fangelsi í tæpa viku, en var síðan leystur úr haldi og settur í farbann sem átti að standa til 25. apríl, þegar taka á mál hans fyrir tyrkneskum dómstól.
Farbanninu var aflétt á mánudaginn og síðan þá hefur Davíð beðið þess að gengið yrði frá þeim pappírum sem nauðsynlegir eru til að heimila för hans, en þessir pappírar eru eins konar yfirlýsing um að hann megi fara úr landi án hindrana. Ekki var útlit fyrir að það næðist fyrir páska, en annað kom á daginn í dag.
„Þetta gekk allt í gegn í dag,“ segir Davíð Örn. „Það leit ekki þannig út, að ég gæti farið heim fyrir páska. En þetta reddaðist fyrir rest og ég hlakka virkilega til að komast heim. Það er bara eintóm gleði. Það er ekki spurning.“
Spurður að því hvort hann geti skýrt frá aðstæðum í fangelsinu í Tyrklandi og því sem á daga hans hefur drifið undanfarnar vikur, segist hann ekki tilbúinn til þess að svo stöddu. „Ég geri það ekki fyrr en búið er að ljúka þessu máli.“
Þarftu að fara til Tyrklands og verða viðstaddur þegar málið þitt verður tekið fyrir? „Ég veit það ekki ennþá, það er ekki komið á hreint.“