Davíð Örn Bjarnason, sem var tekinn höndum í byrjun mars síðastliðinn í Tyrklandi vegna meints smygls á fornminjum, kom heim til Íslands í dag en flugvél hans lenti á Keflavíkurflugvelli um klukkan fjögur. Fjölskylda hans tók á móti honum.
Davíð var handtekinn eftir að marmarasteinn fannst í farangri hans sem talinn var vera fornminjar. Honum var sleppt úr haldi um miðjan þennan mánuð og farbanni sem hann var í var aflétt síðastliðinn mánudag. Í gær fékk hann loks nauðsynlega pappíra til þess að yfirgefa Tyrkland. Ekki var útlit fyrir að það næðist fyrir páska eins og mbl.is fjallaði um í gær en annað kom á daginn.
„Það leit ekki þannig út, að ég gæti farið heim fyrir páska. En þetta reddaðist fyrir rest og ég hlakka virkilega til að komast heim. Það er bara eintóm gleði. Það er ekki spurning,“ sagði Davíð Örn meðal annars í samtali við mbl.is í gær.