„Maður er kominn í faðm fjölskyldunnar sem betur fer. Þeirra sem manni þykir vænt um,“ segir Davíð Örn Bjarnason í samtali við mbl.is en hann kom til landsins í dag eftir að hafa verið í haldi í Tyrklandi vegna meints smygls á fornminjum frá því í byrjun mars. Honum var sleppt um miðjan þennan mánuð og farbanni aflétt yfir honum á mánudag. Í gær fékk hann síðan nauðsynlega pappíra til þess að yfirgefa Tyrkland.
Davíð Örn segir aðspurður að það hafi verið stór stund að hitta loks fjölskylduna sína. Það hafi verið draumur sem loksins hafi ræst. Á meðan hann var í haldi fékk hann ekki að vera í neinu sambandi við fjölskyldu sína. „Ég fékk náttúrulega ekkert að heyra í þeim, bara akkúrat ekki neitt. Það var margoft búið að lofa manni símtölum og öðru en það gekk aldrei eftir. Ég var alveg hættur að taka neinn á orðinu þarna því það var alltaf verið að kynda upp í manni og drepa í manni.“
Spurður um það hvernig hafi verið komið fram við hann í fangelsinu segist hann ekki vilja tjá sig um það að svo stöddu. Hann segir hins vegar aðspurður að upplifun sín af Tyrklandi sé óneitanlega önnur nú en þegar hann fór til landsins í frí ásamt unnustu sinni, Þóru Björgu Birgisdóttur, en þau voru stöðvuð á flugvellinum í borginni Antalya vegna steins sem fannst í farangri þeirra og var talinn vera fornminjar en steininn keypti Davíð á sölubás. „Maður hefur nú aldrei verið erlendis og ekki viljað vera þar áður.“