Mikill sinueldur í Skorradal

mbl.is

Mikill sinueldur kviknaði í kvöld í landi Hvamms í Skorradal og var allt tiltækt slökkvilið sent á staðinn en samkvæmt heimildum mbl.is er talið að eldurinn hafi kviknað út frá flugeldum. Mjög þurrt hefur verið á svæðinu undanfarið.

Tryggvi Sæmundsson frá Hálsum í Skorradal kom fyrstur á staðinn á gröfu og beitti henni á eldinn með því að róta í jarðveginum og banka eldinn með skóflunni að sögn Vilhjálms Þorlákssonar sem á sumarbústað í dalnum. Tryggvi hafi með þessu náð að stöðva eldinn sem sé nú slokknaður. Þá hafi slökkviliðið sömuleiðis staðið sig afburðavel en Tryggvi er í slökkviliðinu.

„Manni finnst bara að það þurfi að taka það fram þegar menn standa sig svona vel. Þetta er bara ótrúleg frammistaða,“ segir Vilhjálmur. Aðspurður segir hann að um nokkur þúsund fermetra sé að ræða sem hafi brunnið. Eldurinn hafi verið kominn í námunda við einn sumarbústað en tekist hafi að koma í veg fyrir að eldurinn færi í hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka