„Athöfnum verður að fylgja ábyrgð“

Hér sést hvernig sumarhúsaeigendur börðust við eldinn.
Hér sést hvernig sumarhúsaeigendur börðust við eldinn. Ljósmynd/Örn Arnarson

„Þetta er skilgreint sem brot á vopnalögum. Það er bannað að skjóta flugeldum hér nema um áramót og á þrettánda,“ sagði Bjarni Kr. Þorsteinsson, slökkviliðsstjóri í Borgarfirði, sem kom að því í gærkvöldi að slökkva sinueld sem hafði brotist út vegna flugelda sem var skotið upp, en notkun flugelda er með öllu óheimil á þessum tíma.

„Já það er vitað hver það var. Það var upplýst í gærkvöldi og viðkomandi gekkst við þessu. Hann verður kærður og verður trúlega krafinn um bætur,“ sagði Bjarni.

“Ekki alltaf hægt að spila frítt“

Hann er síður en svo sáttur við háttalag af þessu tagi og segir: „Þetta er dýrt og þá geta menn farið að vakna upp við það hér á landi að athöfnum verður að fylgja ábyrgð. Það er orðið tímabært að menn rumski við það hérna á Íslandi. Það sé ekki alltaf hægt að spila frítt.“

Spurður að því hversu margir hafi komið að slökkvistörfum sagði hann: „Þetta er fjöldinn allur af sumarhúsafólki. Hjá okkur voru þetta á þriðja tug slökkviliðsmanna. Svo fengum við aðstoð bónda úr Lundareykjadal með haugsugu og dráttarvél. Svo verktaki úr Skorradalnum, Tryggvi Sæmundsson, hann á ekki hvað minnstan þátt í því að þetta breiddist ekki út. Mætti þarna með litla gröfu sem hann á og reif og tætti upp jaðarinn á þessu, velti upp þúfum og hægði verulega á.“

Vöktuðu svæðið í alla nótt

Bjarni segir að það hafi tekið um tvo klukkutíma að slökkva eldinn en að þeir hafi svo vaktað svæðið í alla nótt. Það voru á milli einn og tveir hektarar sem brunnu.

„Við forbleyttum þetta en ekki forsvaranlegt annað þegar það er mökkur af fólki sem dvelur þarna í fastasvefni. Þannig að við vöktum yfir þessu til morguns,“ segir Bjarni.

Eldurinn braust út í sumarhúsahverfi og var stutt í næstu …
Eldurinn braust út í sumarhúsahverfi og var stutt í næstu hús. Á milli einn og tveir hektarar urðu eldinum að bráð. Ljósmynd/Kristín Jónsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert