Umferðin tekin að þyngjast

Búist er við þungri umferð á morgun þegar fólk mun halda heim eftir páskafrí. Árni Friðleifsson, varðstjóri hjá umferðardeild Lögreglunnar, segir að hingað til hafi umferðin gengið ágætlega fyrir sig en í fyrra var töluvert meiri umferð í kringum páska en árið áður þrátt fyrir hækkandi bensínverð. 

Síðustu páska ferðuðust um 33 þúsund bílar yfir Hellisheiði samanborið við tæplega þrjátíu þúsund árið áður og þrátt fyrir mikla hækkun á verði eldsneytis er ekki talið ólíklegt að jafnvel verði fleiri bílar á ferðinni í ár.

Rólegt hefur annars verið yfir páskahelgina til þessa víðast hvar á landinu að sögn lögreglu og lítið um umferðalagabrot. Þó var einn ökumaður stöðvaður í kvöld fyrir hraðaakstur á Reykjanesbrautinni en hann var á 102 kílómetra hraða á klukkustund á kafla þar sem hámarkshraði er 70 km/klst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert