„Það eru einfaldlega breyttar aðstæður“

Frá sinueldinum í Skorradal um helgina.
Frá sinueldinum í Skorradal um helgina. Ljósmynd/Örn Arnarson

„Það þarf að auka meðvitund almennings gagnvart þessari hættu. Það sem við gátum gert hér áður fyrr og fórum létt með, að vera með lítinn varðeld eða eitthvað slíkt, það er kannski ekkert í boði lengur. Það eru einfaldlega breyttar aðstæður,“ segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, í samtali við mbl.is í tilefni af tveimur sinueldum sem áttu sér stað um helgina. Báðir urðu þeir við sumarbústaðasvæði, annars vegar í Skorradal og hins vegar við Galtalækjarskóg.

Sinueldurinn í Skorradalnum kviknaði vegna þess að óvarlega var farið með flugelda en við Galtalækjarskóg var verið að grilla. Jón Viðar bendir á að það þurfi sáralítið til að slíkir eldar kvikni. Ekki þurfi endilega að vera um að ræða óábyrga hegðun. Í sumum tilfellum hafi slíkir eldar kviknað einfaldlega þegar fólk hefur verið að grilla og neisti hlaupið í gróður. Í öðrum tilfellum hafi til að mynda sígarettustubbi verið kastað út úr bifreiðum á ferð. Þá hafi bændur stundum verið að brenna sinu sem farið hefur úr böndunum.

Ekki lengur bara erlendur veruleiki

„Við stöndum einfaldlega frammi fyrir breyttum aðstæðum sem hafa verið að eiga sér stað á undanförnum árum. Samhliða hlýrra veðri hefur gróður tekið við sér á landinu, sem er auðvitað jákvætt, og þurrkatímabil hafa sömuleiðis orðið lengri,“ segir hann. Gróður sé fyrir vikið eldfimari en ella. Hann bendir á að gróðraeldar séu algengir víða erlendis og Ísland sé að færast nær þeim veruleika. Taka þurfi mið af þeim aðstæðum og hafa í huga að þurr gróður sé mjög eldfimur.

„Ef fólk er með eld nálægt olíu eða öðru eldsneyti þá fer það varlega. Þetta er þannig spurning um að fólk sé meðvitað um að það sama á við um gróður. Fólk hefur séð í erlendum fjölmiðlum þar sem heilu svæðin brenna ásamt hinu og þessu. Þar er þetta einfaldlega þekkt fyrirbrigði sem menn hafa glímt við lengi. Nú erum við bara að nálgast þessa stöðu. Þar er hreinlega gefið út af yfirvöldum að það sé bannað að vera með opinn eld og bannað að grilla. Vegna þessara aðstæðna,“ segir Jón Viðar.

„Þessi gamli hugsunarháttur um að þetta reddist bara, þetta verði aldrei stórt bál, gengur ekki lengur. Nú eru menn bara komnir með meiri eldsmat fyrir utan að það eru auðvitað mikil verðmæti í þessum gróðri bara fyrir okkar samfélag. Þetta eru oftar en ekki útvistarsvæði sem fólk sækir í og eru ekkert byggð bara upp í einum grænum. Sumt af því er jafnvel óafturkræft, allavega fyrir eina kynslóð. En númer eitt tvo og þrjú er auðvitað að fólk sé meðvitað um þessa hættu,“ segir hann.

Gert ráð fyrir áframhaldandi þurrkum

Mjög þurrt hefur verið einkum á vestanverðu landinu að undanförnu með austlægri átt og lítilli úrkomu. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands er gert ráð fyrir hliðstæðum aðstæðum á næstunni og í það minnsta út þessa viku. Áframhaldandi austlægri átt og lítilli úrkomu. Það megi því gera ráð fyrir áframhaldandi þurrkum og því full ástæða til þess að fara varlega með eld nálægt gróðri.

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri.
Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert