Meti hvort banna eigi sinubruna

Úr myndasafni.
Úr myndasafni. Ljósmynd/Kristín Jónsdóttir

Mannvirkjastofnun hefur verið falið af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu að meta hvort rétt sé að banna sinubruna eða takmarka umfram ákvæði í núgildandi lögum um sinubrennur og meðferð elds á víðavangi. Ennfremur hefur stofnunin verið beðið um að meta hvort ástæða sé til þess að gera aðrar breytingar á lögunum.

„Samkvæmt lögunum geta ábúendur jarða fengið leyfi til sinubrennu fari hún fram fyrir 1. maí að uppfylltum skilyrðum sem kveðið er á um í reglugerð. Lúta þau m.a. að skyldu ábúenda til að tilkynna hlutaðeigandi slökkviliðsstjóra um brennuna, eftirliti með brennu og fleiru.Óheimilt er að brenna sinu þar sem bruninn skapar almannahættu eða tjón getur orðið á náttúruminjum, fuglalífi, mosa, lyng- eða trjágróðri og mannvirkjum,“ segir á heimasíðu ráðuneytisins.

Þá segir að Mannvirkjastofnun hafi að undanförnu fjallað um sinubruna og þannig til að mynda staðið fyrir málþingi um gróðurelda með Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Það sé mat ráðuneytisins að tímabært sé að endurskoða reglur um sinubruna og að umræðan sem Mannvirkjastofnun hafi staðið fyrir sé mikilvægt innlegg í þá endurskoðun. Óskað hefur verið eftur tillögum stofnunarinnar eigi síðar en 15. júní næstkomandi.

Frétt mbl.is: „Einfaldlega breyttar aðstæður“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka