„Ég er búin að plana þetta í smá tíma og æfi núna stíft að ganga með þungar byrðar,“ segir afrekskonan Vilborg Arna Gissurardóttir sem seint verður kölluð kyrrsetumanneskja.
Hún er nýsnúin heim frá suðurpólnum en stefnir nú á hæsta fjall Norður-Ameríku, sem gjarnan er kallað kaldasta fjall heims.
Fjall þetta er í Alaska og gengur bæði undir heitinu Denali, sem á máli frumbyggja þýðir Sá hái, eða Mt. McKinley eftir 25. forseta Bandaríkjanna, William McKinley. Hæsti tindur Denali skagar 6.194 metra yfir sjávarmál og leiðin upp er engin hægðarleikur enda geta aðstæður sveiflast öfganna á milli.
Með félagsskap í þetta sinn
„Oft er talað um það sem kaldasta fjall í heimi, en það er í raun ekki hægt að segja að eitthvað sé kaldara en annað,“ segir Vilborg Arna sem býst ekki við mikið meiri kulda en hún upplifði á Suðurpólnum. „En þarna getur orðið mjög heitt á daginn og svo ofboðslega kalt á nóttunni.“
Í þetta skiptið mun Vilborg ekki takast ein á við verkefnið því með í för verður annar Íslendingur, Sigurður Bjarni Sveinsson. Í Alaska slást þau svo í lið með öðrum leiðangri og verður því um hóp að ræða.
Áhersla á andlegan undirbúning
Vilborg Arna undirbúninginn ekki svo ósvipaðan og í Suðurpólsleiðangrinum. „Í grunninn eru allir leiðangrar mjög svipaðir. Það fer mikill tími í að pæla í leiðum og velja búnað. Svo er það andlegi undirbúningurinn sem ég legg mikla áherslu á.
En þetta er þó öðruvísi að því leyti að þetta er fjall þannig að það er meiri burður upp í móti. Við þurfum bæði að ganga með bakpoka og draga á eftir okkur sleða upp í fyrstu búðirnar. Þetta er bratt á köflum og það eru sprungur, og svo kemur inn í að þarna geta menn fengið hæðarveiki.“
„Ekkert gefins“ í fjallamennskunni
Mjög misjafnt er hvernig líkaminn bregst við hinu þunna háfjallalofti og segir líkamsform ekki endilega til um hvort göngufólk fær hæðarveiki eða ekki. Vilborg Arna segir að þegar komið sé upp í um 5.000 - 5.500 metra hæð megi búast við að gangan verði verulega erfið.
„Ég hef ekki orðið hæðarveik en ég hef klifrað í Ölpunum og því fundið hvernig þetta er. Maður mæðist fyrr og svona, en þarna er þetta á miklu stærri skala. Þetta er í fyrsta skipti sem ég fer upp í slíka hæð og maður þarf að fara mjög varlega og hlusta á líkamann. Það er náttúrulega ekkert gefins í þessu.“
Þarf að „leiðrétta“ líkamann eftir Suðurpólinn
Spurð hvor hún sé ekki í toppformi eftir Suðurpólinn segir Vilborg Arna málið aðeins flóknara en svo því í raun þurfi að stilla líkamann af eftir svo mikið álag.
„Það er svolítið skrýtið, að þegar maður kemur heim úr svona ferð þá þarf maður að leiðrétta líkamann. Maður er búinn að ofþjálfa suma vöðva á meðan aðrir hafa ekki verið í eins mikilli virkni. Jafnvægispunkturinn er líka kominn aðeins framar eftir allan sleðadráttinn. Þannig að ég er með einkaþjálfara sem hjálpar mér að koma líkamanum bæði í rosalega gott form og að leiðrétta hann, ef maður getur sagt sem svo.“
Leiðangurinn á tind Denali hefst þann 7. maí og áætlað er að gangan taki um 3 vikur. Gangi allt eftir ætti Vilborg því að standa á tindi hæsta fjalls Norður-Ameríku í lok maí. Hún stefnir á að blogga líkt og hún gerði frá Suðurpólnum og verður því hægt að fylgjast með ferðinni á Vilborg.is.