Ríkisstjórnin hefur ákveðið að verja nú þegar 79 milljónum króna til að fjármagna forgangsaðgerðir til að bregðast við neyðarástandi í kynferðisbrotum gegn börnum. Þetta var kynnt á fundi á vegum forsætis-, innanríkis-, velferðar- og mennta- og menningamálaráðuneytisins í Þjóðmenningahúsinu nú eftir hádegið, en nefnd hefur verið starfandi á vegum ráðuneytanna um samhæfða framkvæmd stjórnvalda til að sporna gegn kynferðislegu ofbeldi, eflingu lögreglu og ákæruvalds og bætt úrræði fyrir þolendur kynferðisbrota, einkum börn.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra sagði að við stæðum frammi fyrir neyðarástandi í þessum málum sem þoli enga bið og nauðsynlegt sé að grípa strax til aðgerða. Hún sagði tillögur nefndarinnar 27 talsins og kostnaður við að framkvæma þær sé um þrjú hundruð milljónir króna.
Nýtt barnahús forgangsatriði
Búið er að forgangsraða tillögunum og verður gripið til 15 þeirra nú þegar. Komið verður á fót nýju barnahúsi, sem er algjörlega sprungið, að sögn forsætisráðherra.
Forsætisráðherra sagði málið ekki nýtt hjá ríkisstjórninni og að málið hafi meira og minna verið á borði ríkisstjórnar allt kjörtímabilið, meðal annars aðgerðir vegna alþjóðlegra samninga. Þá hafi verið ráðist í bætur handa til handa þeim sem á hafi verið brotið og farið í vitundarvakningu um kynferðisleg ofbeldismál.
Forsætisráðherra sagðist sannfærð um að það hafi meðal annars leitt til þess að þessi mikli vandi væru nú til staðar.
Hún sagði að aðgerðirnar nú kostuðu um 80 milljónir króna. Síðan verði ráðist í að undirbúa kaup á nýju barnahúsi sem muni kosta um 110 milljónir króna nettó, en núverandi barnahús verður selt. Það verði því ráðist strax í aðgerðir upp á 190 milljónir. Forsætisráðherra sagðist vona til að næsta ríkisstjórn myndi svo klára aðgerðalistann á næsta kjörtímabili.
Í máli Ágústs Ólafs Ágústssonar, formanns nefndarinnar, kom fram að nú leiti að meðaltali um tvö börn til Barnahúss og að í 15 ára sögu hússins sé nú í fyrsta skipti kominn biðlisti hjá Barnahúsi.