Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagði mikilvægt að samhæfa krafta til að láta kerfið vinna vel saman varðandi kynferðisbrotamál. Ráðherra sagði mikið hafa verið gert til vitundarvakningar og að reynt væri að vekja samfélagið upp til að fólk áttaði sig á ábyrgð sinni hvað þessi mál varðaði.
Ráðherra sagði að á síðasta ári hefðu 25 milljónir verið settar í átak til vitundarvakningar á kynferðisbrotum, 16 milljónir á þessu ári og aðrar 16 milljónir væru ráðgerðar í átakið á næsta ári.
Innanríkisráðherra sagði vandann ekki nýjan af nálinni en að það hefði tekið tíma fyrir samfélagið til að vakna upp. Hann sagðist sannfærður um að átak og starf síðustu ára væri að skila sér í því að börn, unglingar og aðrir sem hefðu orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi væru að leita réttar síns nú með þeim afleiðingum að neyðarástand ríkti.
Hann sagði eitt og annað í lagaumhverfinu hafa verið bætt. Meðal annars lög um miskabætur. Hann sagði fagráð hafa verið sett á laggirnar sem regnhlíf fyrir trúarsamtök landsins til að styrkja stöðu þeirra sem orðið hefðu fyrir ofbeldi á þeim vettvangi.
Hann sagði fagnaðarerindi að styrkja saksóknaraembættið til að takast á við þessu mál sem og lögregluna.
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra sagði það betur koma í ljós hversu illa hefði tekist að standa vaktina varðandi þessi mál. Þrátt fyrir tilkynningar eða ábendingar í gegnum tíðina hefðu jafnvel heilu samfélögin lokað augunum fyrir því ástandi. Það væri því mikilvægt að efla vitundarvakningu í samfélaginu. Hann sagði skipta máli að allir hlekkirnir væru sterkir.
Guðbjartur sagði að í ofbeldismálum gegn konum á heimilum væru börn oft fórnarlömb. Hann sagði mikilvægt að fulltrúar í barnaverndarnefndum um allt land kynnu að bregðast við þegar þessi mál kæmu upp. Ráðherra sagði öflugasta hlekkinn í keðjunni hingað til hafa verið Barnahús og að nú þegar það væri kaffært í verkefnum væri stærsta verkefnið að bregðast við, bæði varðandi mönnun og húsnæði.
Þá nefndi ráðherra Kristínarhús, Kvennaathvarfið, Stígamót og fleiri þætti sem þyrfti að setja meira fjármagn í því það sýndi sig að fólk kæmi meira inn í þessar einingar en inn í opinbera kerfið.