Skipulögðu smyglið vel

Mynd frá dönsku lögreglunni, sem sýnir hvernig amfetamínið var falið …
Mynd frá dönsku lögreglunni, sem sýnir hvernig amfetamínið var falið undir bílsæti.

Íslendingarnir átta sem ákærðir voru í Danmörku þann 13. mars fyrir amfetamínsmygl og ýmsar minni sakir, höfðu komið sér upp tækjabúnaði til blöndunar og pökkunar á fíkniefnunum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ákæruskjölum. Þeir smygluðu alls rúmum 66 kílóum af amfetamíni í þrennu lagi frá Hollandi í félagi við þrjá Dani á tæpu ári.

Mennirnir höfðu komið sér upp aðstöðu á heimili eins þeirra í bænum Heslev, sem er skammt utan Kaupmannahafnar. Efnin átti að blanda með kreatíni, en þeir voru teknir af lögreglu þegar þeir hugðust hefjast handa. 

Íslendingarnir átta eru á ýmsum aldri, sá elsti er fæddur árið 1963  og sá yngsti 1991. Sá sem talinn er vera höfuðpaurinn í málinu er fæddur árið 1974. Þeir hafa verið í gæsluvarðhaldi í Danmörku frá því í september í fyrra og eru vistaðir á nokkrum stöðum á Kaupmannahafnarsvæðinu.

Fylgdust grannt með eftirliti við landamærin

Smyglið var vel skipulagt. Þeir fóru á tveimur bílum til Hollands til að sækja fíkniefnin, annar bíllinn flutti efnin, hinn fylgdi á eftir til að kanna eftirlit við landamærin. Í fyrsta skiptið, í nóvember 2011, smygluðu þeir a.m.k. 27 kílóum af amfetamíni sem voru flutt á heimili eins Danans í Óðinsvéum. Annað skiptið var í ágúst í fyrra og þá keyptu þeir 12 kíló. Þá fóru tveir Íslendinganna og einn af Dönunum til Hollands og ók Daninn bílnum sem efnin voru flutt í , en Íslendingarnir fylgdu á eftir. Þá var Daninn handtekinn.

Mánuði síðar fóru þeir aftur til Hollands, keyptu þar rúm 21 kíló af amfetamín og blönduðu það með sex kílóum af íblöndunarefni. Farið var með efnin á heimili eins Íslendinganna í Heslev, en þar voru þeir handteknir.

E-töflur og skammbyssa

Auk þessa eru tveir Íslendinganna ákærðir fyrir að hafa haft í fórum sínum 2000 e-töflur, 0,6 kíló, sem fundust í húsinu í Heslev, annar Íslendingur er ákærður fyrir brot á vopnalögum fyrir að hafa haft í fórum sínum skammbyssu, en við yfirheyrslur sagðist hann óttast um líf sitt. Þá sætir einn Íslendinganna tveimur ákærum fyrir að hafa haft farsíma í fórum sínum í gæsluvarðhaldsvistinni án leyfis.

Steffen Thaaning Steffensen, yfirmaður deildar skipulagðra glæpa hjá dönsku lögreglunni, sagði í samtali við mbl.is í gær að líklegt væri að málið verði þingfest ytra í ágúst.

Amfetamínið sem lögreglan fann við leit í bifreið mannanna.
Amfetamínið sem lögreglan fann við leit í bifreið mannanna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert