Hún lætur ekki mikið yfir sér fréttin, sem birtist á síðu tvö í Morgunblaðinu þann 11. apríl 1970 undir fyrirsögninni: McCartney hættir með Bítlunum. Þarna var greint frá því sem margir telja ein helstu tíðindi tónlistarsögunnar: Paul McCartney hætti í einni vinsælustu hljómsveit allra tíma. Reyndar hafði félagi hans John Lennon gefið út svipaða yfirlýsingu árið áður, en yfirlýsing McCartneys þótti endanleg staðfesting þess að samstarfið væri fyrir bí.
Daginn áður hafði McCartney tilkynnt heimspressunni að hann hygðist hætta öllu samstarfi við félaga sína í hljómsveitinni og að hann myndi draga sig út úr heimsins glaumi og helga sig fjölskyldulífinu í framtíðinni, eins og segir í greininni.
Margir hafa orðið til þess að velta vöngum yfir því hvernig hljómsveitin hefði þróast, hefðu fjórmenningarnir haldið áfram samstarfi sínu. Hvernig tónlist þeirra hefði orðið og hvort þeir væru jafnvel ennþá starfandi, líkt og The Rolling Stones, sem voru samtíðarmenn þeirra í tónlistinni og eru nú komnir á áttræðisaldur.
Óttar Felix Hauksson útgefandi er einn helsti sérfræðingur landsins í tónlist þessa tíma.
„Þeir höfðu starfað óslitið saman frá árinu 1957 og það hafði verið vitað í einhvern tíma að endalokin væru skammt undan árið 1970,“ segir Óttar Felix. Hann segir að endalok hljómsveitarinnar hafi verið að fullu ljós í árslok þetta ár, þrátt fyrir yfirlýsingar frá bæði Paul McCartney og John Lennon um að þeir væru hættir í Bítlunum.
Að mati Óttars hélt tónleikahald Bítlunum saman, þegar þeir hættu því að mestu árið 1966 var fátt eftir. „Þá voru þeir ekki lengur svona venjuleg hljómsveit sem hittist, æfir undir túra og spilar á hverju kvöldi á tónleikum. Þá fara menn líka að vinna hver í sínu horni. Þannig að þetta lá í kortunum,“ segir Óttar Felix.
Í frétt Morgunblaðsins segir að Paul McCartney muni hugsanlega endurskoða þessa afstöðu sína, en eins og alkunna er gerðist það ekki, Bítlarnir komu aldrei saman aftur og nú eru tveir þeirra látnir.
<em>Ef við ímyndum okkur að þeir væru allir á lífi og starfandi enn þann dag í dag; hvað heldurðu að þeir væru að fást við?</em>„Þeir væru líklega ekki að vinna á skrifstofu. Þeir væru að vinna að músík og spila, jafnvel eins og Stones,“ segir Óttar Felix.