Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, og prófastur Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmis hafa rætt við sóknarprestinn á Húsavík í tengslum við mál Guðnýjar Jónu Kristjánsdóttur. Agnes segir að kynferðisbrot eigi ekki að liggja í þagnargildi og segir að Guðný hafi sýnt hugrekki.
Biskup hefur falið vígslubiskupi á Hólum til að fylgja málinu eftir.
„Kirkjan hefur einsett sér að vera fyrirmyndarstofnun þegar kemur að viðbrögðum við kynferðisbrotum. Þegar mistök eru gerð í viðbrögðum kirkjunnar þarf að leiðrétta þau og læra af þeim. Þannig ætlar kirkjan að vinna,“ segir Agnes í yfirlýsingu sem hefur verið birt á vef þjóðkirkjunnar.
Guðnýju Jónu var nauðgað á Húsavík árið 1999 og sagði hún sögu sína í Kastljósi í gær. Þar fjallaði hún um undirskrifarlista sem birtur var opinberlega til stuðnings ofbeldismanninum sem hlaut dóm fyrir árásina.
Guðný Jóna var spurð í viðtalinu hvort einhver hefði þrýst á hana um að kæra ekki nauðgunina. Hún sagði að Sighvatur Karlsson, prestur á Húsavík hefði „ýjað“ að því við sig hvort „það væri ekki betra að hætta bara við þetta“.
Agnes segir í yfirlýsingunni, að í tilefni af viðtali við Guðnýju Jónu í Kastljósi í gærkvöldi og viðtali við Sighvat Karlsson, sóknarprest á Húsavík, í Fréttablaðinu í dag sé mikilvægt að koma eftirfarandi á framfæri.
„Nauðgun er ofbeldi og ofbeldi á aldrei að líðast. Kirkjan og prestarnir sem lykilstarfsmenn hennar eiga að standa með þolendum og styðja þá í að leita réttar sins.
Guðný Jóna sýndi hugrekki með því að kæra ofbeldið á sínum tíma og aftur núna með því að segja sögu sína opinberlega. Kynferðisbrot eiga ekki að liggja í þagnargildi og mikilvægt er að samfélagið styðji þolendur til að hafa kjark til stíga fram og leita réttar sins. Vitnisburður hennar í Kastljósinu er mikilvægur í því samhengi.
Ég og prófastur Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmis höfum rætt við sóknarprestinn á Húsavík og hef ég falið vígslubiskupi á Hólum að fylgja málinu eftir.
Kirkjan hefur einsett sér að vera fyrirmyndarstofnun þegar kemur að viðbrögðum við kynferðisbrotum. Þegar mistök eru gerð í viðbrögðum kirkjunnar þarf að leiðrétta þau og læra af þeim. Þannig ætlar kirkjan að vinna,“ segir í yfirlýsingunni.