Gunnar Þ. Andersen, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, þarf að greiða tvær milljónir króna í sekt til ríkissjóðs en sæti ella fangelsi í 44 daga samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem féll í morgun en Gunnar var ásamt Þórarni Má Þorbjörnssyni, fyrrverandi starfsmanni Landsbankans, ákærður fyrir brot í starfi.
Hann var ennfremur dæmdur til þess að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðjóns Ólafs Jónssonar hæstaréttarlögmanns, að upphæð 2.346.850 krónur, og þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi málsins, Þorbjargar Ingu Jónsdóttur hæstaréttarlögmanns, 62.750 krónur.
Þórarinn var dæmdur til þess að greiða eina milljón króna í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins en sæti annars fangelsi í 40 daga. Þá þarf hann að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Magnússonar hæstaréttarlögmanns, 589.850 krónur.
Gunnar var ákærður fyrir brot á þagnarskyldu þegar hann hafði frumkvæði að því að gögnum um kaup Landsbankans á Bogmanninum, félagi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar alþingismanns, var komið til DV.
Fram kemur í dómnum að hvorugir mannanna hafi sætt refsingu áður. Gunnar er sakfelldur fyrir alvarlegt trúnaðarbrot þegar hann gegndi stöðu forstjóra Fjármálaeftirlitsins sem hafi það hlutverk að sjá til þess að fjármálastarfsemi í landinu sé í samræmi við lög og reglur. Hann hafi þrátt fyrir það fengið Þórarinn til þess að rjúfa þagnarskyldu sem á honum hvíldi og hlutast til um að trúnaðarupplýsingar bærust til fjölmiðla. Um ákveðinn ásetning hafi verið að ræða af hans hálfu.
Þórarinn er dæmdur fyrir að miðla trúnaðarupplýsingum í starfi sínu hjá fjármálafyrirtæki en tekið fram að ekki hafi komið fram í málinu að hann hafi vitað að þeim yrði komið til fjölmiðils. Þá hefði honum verið sagt upp starfi sínu vegna málsins.