Í skýrslu Hagstofunnar um útgjöld heimilanna segir að um 73% heimila búi í eigin húsnæði og 27% í leiguhúsnæði. Hlutfall leigjenda hefur ekki verið jafnhátt í áratugi, sífellt fleiri hafa ýmist ekki tök á að kaupa eigið húsnæði eða kjósa að gera það ekki.
„Enginn stjórnmálaflokkur virðist hafa mikinn áhuga á þeim sem eru á leigumarkaði,” segir Irpa Sjöfn Gestsdóttir þriggja barna einstæð móðir, sem hefur leitað að leiguhúsnæði í á þriðja mánuð. „Ef ég ætti að lýsa leigumarkaðnum með einu orði, þá er það: hræðilegur. Það er takmarkað framboð, það litla sem er í boði er svo dýrt að það er ekki hægt að lifa mannsæmandi lífi ef maður ætti að greiða þá leigu. Svo eru svo margir um hverja íbúð, það er hreinlega barist um þær og ég hef heyrt að fólk sé að yfirbjóða.”
Irpa Sjöfn telur sig geta komist af með þriggja herbergja íbúð og hún vill búa á höfuðborgarsvæðinu. Hún segir gangverðið á íbúðum með þennan fjölda herbergja vera frá 150.000 og allt upp í 220.000 á mánuði. En þar með er ekki öll sagan sögð, því að þeir sem ætla að fara út á leigumarkaðinn þurfa oftast að greiða tryggingu sem getur verið býsna há upphæð.
„Yfirleitt er farið fram á þriggja mánaða fyrirframgreiðslu og margir fara líka fram á tryggingu í formi bankaábyrgðar og hún er oft jafnvirði þriggja mánaða leigu til viðbótar,” segir Irpa Sjöfn.
Ef við gefum okkur að leigan sé 200.000 krónur á mánuði og að krafist sé þriggja mánaða fyrirframgreiðslu auk bankaábyrgðar, sem getur numið þriggja mánaða leigu, þá getur sá sem leigir þá íbúð þurft að reiða fram allt að 1.2 milljónir króna í upphafi leigutímans.
Í skýrslu Hagstofu Íslands kemur fram að húsnæðiskostnaður var 18,7% ráðstöfunartekna Íslendinga árið 2011. Gjarnan hefur verið miðað við að hann fari ekki yfir 25% af ráðstöfunartekjum. Ef Irpa Sjöfn ætti að halda sig innan þeirra marka og greiða 200.000 króna leigu á mánuði þarf hún að vera með a.m.k. 600.000 króna ráðstöfunartekjur, því hún gæti fengið húsaleigubætur að hámarki 47.700 krónur.
Hún starfar sem deildarstjóri á leikskóla og segir tekjur sínar vera langt frá þessari upphæð, leigan sé talsvert hærra hlutfall tekna hennar en sem nemur þessum 25%.
„Þessi upphæð er á bilinu 60-70% af mínum ráðstöfunartekjum,” segir hún. Hvernig muntu þá fara að því að greiða þessa leigu? „Ég hef ekki mikið val. En hvað get ég annað gert? Líklega þarf ég að bæta við mig annarri vinnu.”
Vísitala leiguverðs hefur hækkað jafnt og þétt undanfarin tvö ár samkvæmt leigugagnagrunni Þjóðskrár, hún var 100 stig í janúar 2011 en mældist 121,6 stig í febrúar síðastliðnum. Þá hafði hún hækkað um 2,4% frá síðasta mánuði og um 10,6% undanfarna 12 mánuði. Á sama tíma hækkaði vísitala neysluverðs um 6,3%.
Að sögn Irpu Sjafnar er framboð af skornum skammti og margir eru um hverja íbúð. Íbúðir eru yfirleitt leigðar út í stuttan tíma í einu, þannig að fólk á leigumarkaði þarf gjarnan að vera á tíðum flutningum. „Þegar talað er um langtímaleigu, þá er hámarkið yfirleitt tvö ár. Ég hef ekki heyrt mörg dæmi um að fólk geti leigt íbúðir lengur en það,” segir Irpa Sjöfn. „Ég hef verið á leigumarkaði frá 2008 og hef á þeim tíma flutt fjórum sinnum.”
Hvaða aðrir möguleikar eru í boði fyrir þig og börnin þín? „Það eru engir aðrir möguleikar. Það vantar sárlega úrræði fyrir fólk sem vill leigja. Eins og staðan er í dag, þá er eina leiðin fyrir þá sem vilja bjóða fjölskyldunni sinni öruggt húsaskjól, að kaupa íbúð. Það er enginn annar möguleiki, ekkert sem kom í staðinn fyrir Verkamannaíbúðakerfið sem var lagt niður. Það er ljóst að það þarf að gera eitthvað. Ég er ekki sú eina sem er í þessari stöðu.”