Starfsmaður krabbameinsdeildar Landspítalans, sem sagt var upp störfum nýverið eftir að upp komst að viðkomandi var ekki með hjúkrunarfræðimenntun, hafði lokið um tveggja ára námi í hjúkrunarfræði, en námið er fjögur ár.
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga birti í dag yfirlýsingu þar sem segir að við samanburð á innborgunum launagreiðanda í sjóði Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga við félagatal fyrr á árinu hafi kom í ljós að greiðslur hafa ítrekað borist frá einum launagreiðanda fyrir einstakling sem ekki er félagi í Fíh og hefur ekki starfsleyfi hjúkrunarfræðings. Enginn getur gerst aðili að Fíh án þess að fyrir liggi staðfesting Embættis landlæknis á því að viðkomandi hafi á grundvelli laga um heilbrigðisstarfsmenn, leyfi til þess að stunda hjúkrun hér á landi og kalla sig hjúkrunarfræðing.
Félagið sendi Landspítalanum upplýsingar um þetta. Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, segir að þetta mál hafi komist upp vegna tilkynningar hjúkrunarfræðingafélagsins. Hann segir að eftir því sem hann best viti þá sé þetta mál einsdæmi hér á landi. Það hafi komið fyrir að menn hafi slugsað að ná sér í leyfi eftir að hafa lokið námi, en ekki að menn hafi reynt að fá starf sem heilbrigðisstarfsmaður án þess að hafa lokið tilskilinni menntun.
Björn segir að Landspítalinn hafi, eftir að starfsmaðurinn var ráðinn fyrir tæplega tveimur árum, oftar en einu sinni beðið starfsmanninn að skila inn hjúkrunarleyfi til spítalans. Starfsmaðurinn hafi lofað að gera það og það hafi verið tekið gott og gilt, enda hafi spítalinn gengið út frá því að starfsmaðurinn hafi lokið námi. Málið var síðan skoðað ítarlega eftir að tilkynning kom frá hjúkrunarfræðingafélaginu.